Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2022.

húsaleigulög.

272. mál
[16:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að meiri hlutinn hafi fallið frá fyrri tillögu um að hafa kærufrestinn einungis einn mánuð, enda er hér verið að tala um hóp af fólki og heimild til kæru fyrir hóp af fólki sem alla jafna er í nokkuð viðkvæmri stöðu, bæði vegna efnahagsstöðu sinnar, mögulega tungumálakunnáttu og annarra atriða sem kunna að hafa áhrif á möguleika þess á að kynna sér réttarstöðu sína á svo skömmum tíma eins og áður var ákveðið.

Ég kem hingað hins vegar til að lýsa yfir vonbrigðum með það að meiri hlutinn hafi í raun ákveðið að gjörbylta markmiðum frumvarpsins með því að fella út skráningarskyldu ríflega helmings leigusamninga eins og ætlunin var að gera.

Ég vek athygli á að frumvarpið er lagt fram núna í þriðja sinn eftir gríðarlega mikið samráð. Fyrst var settur af stað hópur sem vann 2018–2019 að tillögum. Eftir það var sett af stað nefnd sem er að fara yfir heildarendurskoðun á húsaleigulögunum. Allt er þetta í samráði við hagsmunaaðila á markaði, við vinnumarkaðinn og fleiri, Öryrkjabandalagið og fleiri lykilþátttakendur á markaðnum, og núna á síðustu stundu í gærkvöldi komu breytingartillögur frá meiri hlutanum sem ekki var hægt að bera undir þá aðila sem voru t.d. aðilar að lífskjarasamningunum. Við meðferð málsins núna eftir 2. umr. náðum við þó að kalla inn fulltrúa ASÍ sem lýsti því að þessi breyting sem meiri hlutinn lagði til væri eins og blaut tuska í andlit þeirra af því að þetta gjörbylti og gjörbreytti eðli málsins, eðli frumvarpsins, af því að það væri verið að hafa þarna áhrif á töluverðan hluta samninga. Er það miður að meiri hlutinn skuli fara þessa leið, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa svo mikil völd í þessu þriggja flokka samstarfi að geta á einni kvöldstund gjörbylt áður ágætu frumvarpi hæstv. innviðaráðherra. Það er miður.