153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

menntunarstig á Íslandi.

[15:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og vil einmitt spyrja hana út í fjárhagsstuðning við stúdenta, sem skiptir höfuðmáli og er fjárfesting til framtíðar fyrir samfélagið. Menntasjóður er tvímælalaust besta verkfærið sem við höfum til að tryggja stúdentum jafnan aðgang, óháð efnahag, og má þakka jafnaðarmönnum fyrri tíma fyrir að hafa komið á námslánakerfinu hér á landi. Fyrir liggur að ráðherra er, eins og hún kom inn á, skylt að endurskoða lög um Menntasjóð fyrir sumarið og komu stúdentar á framfæri tillögum.

Við verðum að horfa á þá stöðu að fyrir tíu árum voru rúmlega 12.000 sem tóku námslán en þeir voru einungis 5.000 í fyrra. Hvað veldur þessu? Það hlýtur að vera eitthvað að kerfi sem fækkar svona rosalega þeim sem sækja stuðning inn í kerfið. Þeim hefur fjölgað verulega, og það er einmitt ekki í neinu samræmi við það sem þekkist í nágrannaríkjunum, stúdentum sem kjósa að vinna með námi og vinna jafnvel fulla vinnu með námi. Auðvitað bitnar það á framvindu í námi (Forseti hringir.) og möguleikum á að klára námið þegar fólk er í svona mikilli vinnu með námi. Hyggst (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra mæta kröfum stúdenta, sem voru reyndar í 60 tillögum? Þar eru margar mjög góðar tillögur þegar kemur að stuðningi við framfærslu stúdenta.