Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að taka undir með hv. þm. Gísla Rafni Ólafssyni, það er brýnt að fá félags- og vinnumarkaðsráðherra hér í umræðu um þetta mál. Það er verið að breyta lögum er heyra undir hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, þ.e. lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Það er hluti af þeim lögum sem verið er að breyta með því frumvarpi sem verður hér til umfjöllunar.

Það var í rauninni í senn áhugavert og átakanlegt þegar fulltrúar ráðuneytis komu, án ráðherra, fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd, enda virðist sem ráðuneytinu hafa verið ókunnugt um að verið væri að sýsla um mál er heyrðu undir ráðuneytið. Það var óheppilegt hversu lítil vitneskja virtist vera þar innan húss um það sem verið var að gera breytingar á en heyrir undir málefnasvið hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra. Það er brýnt að hann verði viðstaddur hér og óskum við eftir að hann komi hér í hús um leið og hann kemur til landsins, en hann var einmitt líka í útlöndum síðast þegar málið var hér til umræðu.