Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir hönd meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga. Um efni frumvarpsins vísast almennt til greinargerðar þess. Nefndin hefur fjallað um málið, borist hafa umsagnir um málið og gestir hafa komið á fundi nefndarinnar. Greint er frá því í nefndaráliti og liggur það frammi. Þá má geta þess að nefndin hefur einnig fjallað um málið núna í nýliðinni nefndaviku og mun vera að fjalla frekar um þær heimsóknir í framhaldsnefndaráliti sem meiri hlutinn mun boða hér fyrir 3. umr.

Virðulegur forseti. Nefndin hefur fjallað sérstaklega um samræmi frumvarpsins við stjórnarskrá Íslands og alþjóðasamninga á sviði mannréttinda sem Ísland er aðili að. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að það hafi ekki gefið tilefni til að skoða sérstaklega samræmi við stjórnarskrána. Í ljósi athugasemda og umræðna sem sköpuðust í kjölfarið fjallaði nefndin sérstaklega um samræmi frumvarpsins við ákvæði stjórnarskrárinnar og alþjóðlegar skuldbindingar.

Breytingar varðandi málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd. Meðal efni frumvarpsins eru breytingartillögur sem miða að aukinni skilvirkni á stjórnsýslulegri málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd og má þar nefna 2. gr. frumvarpsins. Með því ákvæði er lagt til að við 7. gr. laganna bætist nýr málsliður sem mælir fyrir um að ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á efnismeðferð á grundvelli 36. gr. sæti sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála, nema umsækjandi óski þess sérstaklega að kæra ekki og skal greinargerð vegna kæru berast kærunefnd innan 14 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.

Fyrir nefndinni komu fram áhyggjur af þessari breytingu og bent var á að forsenda þess að umsækjandi geti skilað greinargerð vegna kæru til kærunefndar útlendingamála er að viðkomandi hafi öll gögn, m.a. frá Útlendingastofnun. Umsækjandi gæti því haft skamman frest til að vinna greinargerð sína og það gæti unnið gegn réttindum til raunhæfs úrræðis til að leita réttar síns. Meiri hlutinn bendir á að með þessu er ætlunin að stytta málsmeðferðartíma sem ekki er nýttur til málavinnslu en mikill meiri hluti ákvarðanna í slíkum málum sæta kæru til kærunefndarinnar. Breytingunni er ekki ætlað að skerða réttarvernd umsækjenda um alþjóðlega vernd. Meiri hlutinn áréttar að stjórnsýslulög gilda fullum fetum um meðferð útlendingamála nema annað leiði skýrlega af öðrum ákvæðum laga um útlendinga. Á stjórnvöldum hvílir rannsóknarskylda samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga og ber þeim að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál séu nægilega upplýst áður en ákvarðanir eru teknar. Verklagsreglur kærunefndar útlendingamála gera einnig ráð fyrir að hægt sé að leggja fram viðbótargögn og nefndin getur veitt frest til að skila greinargerð og frekari gögnum þegar þörf er á. Að mati meiri hlutans munu þessar breytingar stuðla að aukinni skilvirkni málsmeðferðar án þess að draga úr réttarvernd umsækjenda.

Við meðferð málsins fyrir nefndinni var einnig fjallað um 7. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að við lögin bætist ný grein sem varðar endurteknar umsóknir. Með ákvæðinu er lagt til að mælt verði fyrir um sérstaka málsmeðferð endurtekinna umsókna um alþjóðlega vernd sem er ætlað að samræma málsmeðferð, auka skilvirkni og tryggja rétt umsækjenda til að fá ákvarðanir skoðaðar á grundvelli nýrra upplýsinga sem liggja fyrir. Þá fjallaði nefndin um 8. gr. frumvarpsins sem mælir m.a. fyrir um reglur um fyrsta griðland. Meiri hluti nefndarinnar undirstrikar mikilvægi þess að í framkvæmd munu stjórnvöld leggja mat á hvert og eitt mál með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda, stöðu hans í því ríki sem hann hefur tengsl við og aðstæður í ríkinu. Ekki er heimilt að senda einstakling þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu og nauðsynlegt er að réttindi á grundvelli alþjóðasamninga um stöðu flóttamanna séu virt.

Virðulegi forseti. Samkvæmt gildandi lögum um útlendinga njóta umsækjendur um alþjóðlega vernd margvíslegrar þjónustu á meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá stjórnvöldum, svo sem húsnæði, framfærslu og aðra grunnþjónustu. Lögin segja þó ekki til um hvenær þessi réttindi falla niður eða hvort heimilt sé að skerða þau í ákveðnum tilfellum. Með frumvarpi þessu er lagt til að meginreglan verði að útlendingur sem fengið hefur endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd njóti áfram allra þessara réttinda þar til hann hefur farið af landi brott en að hámarki í 30 daga frá því að ákvörðun verður endanleg á stjórnsýslustigi. Meiri hlutinn áréttar að gert er ráð fyrir mikilvægum undanþágum frá þessari meginreglu. Má þar nefna að ekki verður heimilt að fella niður réttindi barna, barnshafandi kvenna, tilgreindra aðstandenda þeirra, alvarlegra veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir. Þá verður heimilt að fresta niðurfellingu réttinda hjá öðrum en ríkisborgurum EES og EFTA-ríkjanna og ríkja sem eru á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki og umsókn viðkomandi hefur verið metin bersýnilega tilhæfulaus ef það telst nauðsynlegt vegna sanngirnissjónarmiða og útlendingur hefur sýnt samstarfsvilja við framkvæmd ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið. Þótt þessi þjónusta falli niður bendir meiri hlutinn á að útlendingar ættu ekki að falla utan allrar þjónustu eða framfærslu hins opinbera en til staðar eru reglur sem gera ráð fyrir neyðaraðstoð fyrir einstaklinga sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi og sem gerir ráð fyrir að erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skuli í sérstökum tilfellum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Meiri hlutinn telur þau neyðarúrræði uppfylla kröfu sem 76. gr. stjórnarskrárinnar gerir og tryggja að einstaklingur eigi ekki á hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 68. gr. stjórnarskrárinnar, samanber 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Varðandi möguleg áhrif á sveitarfélögin þá telur meiri hlutinn að þau áhrif séu ekki teljandi þar sem lög um félagsþjónustu sveitarfélaga mæla svo fyrir að ríkissjóður skuli endurgreiða sveitarfélögum veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara, svo sem aðstoð við erlenda ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu.

Staða fatlaðs fólks og mat á hagsmunum barna. Fyrir nefndinni var fjallað um viðkvæma stöðu fatlaðs fólks sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd. Meiri hlutinn undirstrikar mikilvægi þess að við alla málsmeðferð og framkvæmd á grundvelli laganna sé samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks virtur. Þá sé nauðsynlegt að tryggja sérfræðiþekkingu og þjálfun hjá starfsfólki varðandi þarfir og stöðu fatlaðs fólks í samráði við samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunagæslu.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði reglugerðarheimild um mat á hagsmunum barna samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laganna að höfðu samráði við ráðherra sem fer með mál sem varða barnavernd. Með því er verið að styðja við innleiðingu á barnvænu hagsmunamati. Meiri hlutinn leggur áherslu á að ávallt skuli hafa það sem er barni fyrir bestu að leiðarljósi.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, þess efnis að einstaklingar sem hafa fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og sérstakra tengsla við landið verði undanþegin kröfu um tímabundið atvinnuleyfi fyrir útlendinga samkvæmt 22. gr. laganna. Meiri hlutinn telur um mikilvæga breytingu að ræða sem er ætlað að auka skilvirkni og styrkja stöðu viðkomandi einstaklinga á vinnumarkaði. Meiri hlutinn áréttar að með breytingunni felst jafnframt heimild til að starfa sjálfstætt hér á landi.

Virðulegur forseti. Með frumvarpinu er lagt til að það verði lögfest að framkvæmd flutnings í fylgd sé lögregluaðgerð en brottvísanir og frávísanir hafa verið framkvæmdar á grundvelli þjónustusamnings. Meiri hlutinn áréttar að um er að ræða vandasamt verkefni og mikilvægt að gætt sé að öllum réttindum einstaklinga við framkvæmdina. Verklagið þarf að vera skýrt og vera mótað í samráði við sérfræðinga. Þá ítrekar meiri hlutinn mikilvægi þess að komið verði á eftirliti með framkvæmd brottvísana og frávísana. Finna þurfi farveg fyrir slíkt eftirlit og hefur umboðsmaður Alþingis verið nefndur í því sambandi. Með frumvarpinu er lagt til að lögreglu verði heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði útlendings til að geta ferðast ef nauðsynlegt er að tryggja ákvörðun um brottvísun eða frávísun útlendingsins. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að þessi tillaga fæli í sér víðtæk inngrip í friðhelgi einkalífs. Meiri hlutinn vill taka fram að framkvæmd ákvarðana um frávísun og brottvísun er hluti af lögbundinni málsmeðferð stjórnvalda. Útlendingi sem hefur fengið ákvörðun um frávísun eða brottvísun ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið. Lögregla þarf við framfylgd slíkra ákvarðana að hafa nauðsynlegar heimildir til að afla vottorðs um heilsufar viðkomandi þegar slíkt er metið nauðsynlegt. Fyrir nefndinni var bent á að í gildi er sambærileg heimild í lögum um heilbrigðisstarfsmenn og Persónuvernd gerir ekki athugasemd við ákvæðið. Meiri hlutinn telur ákvæðið nauðsynlegt en áréttar að um er að ræða heimildarákvæði.

Virðulegur forseti. Vík ég nú að breytingartillögum nefndarinnar. Vegna heimsfaraldurs kórónuveiru áttu yfirvöld erfitt um vik að framkvæma endanlegar ákvarðanir stjórnvalda um brottvísanir og frávísanir samkvæmt lögum um útlendinga. Í landinu er því nokkur hópur barna og forsjáraðila þeirra sem hafa dvalist hér um lengri tíma í ólögmætri dvöl en þau uppfylla ekki skilyrði laga til að fá alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með hliðsjón af þeirri sérstöku stöðu sem er komin upp þykir meiri hlutanum rétt í stað þess að framkvæmdar verði brottvísanir eða frávísanir í þessum málum að opnað sé tímabundið á möguleika forsjáraðila þessara barna til að sækja um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli atvinnuþátttöku en þeim dvalarleyfum fylgja dvalarleyfi fyrir börn þeirra. Meiri hlutinn leggur því til nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem rakin eru þau skilyrði sem uppfylla þarf til að geta fengið útgefið dvalarleyfi á grundvelli þess en nánar er gert grein fyrir efni þess í nefndarálitinu. Með þessu úrræði færist viðkomandi einstaklingur úr kerfi sem ætlað er umsækjendum um alþjóðlega vernd og flóttafólki í þá stöðu sem gildir um aðra þriðja ríkis borgara sem koma hingað til lands á grundvelli atvinnuþátttöku. Það er því á ábyrgð forsjáraðila að útvega sér atvinnu hér á landi, örugga sjúkratryggingu og eigið húsnæði að ákveðnum tíma liðnum. Við endurnýjun leyfis þurfa viðkomandi að uppfylla almenn skilyrði laga um útlendinga líkt og gildir um aðra dvalarleyfishafa.

Að lokum leggur meiri hlutinn til, að höfðu samráði við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og dómsmálaráðuneytið, breytingu á 6. gr. frumvarpsins þess efnis að lögreglu verði heimilt að fresta niðurfellingu réttinda samkvæmt 8. mgr. 33. gr. laganna en breytingin er einungis ætluð til frekari skýringar.

Að framansögðu virtu leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð hefur verið grein fyrir.

Undir þetta nefndarálit meiri hlutans rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Jóhann Friðrik Friðriksson, Jódís Skúladóttir, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Teitur Björn Einarsson.

Virðulegur forseti. Mig langar að nota tækifærið og þakka öllum þeim gestum og umsagnaraðilum sem mætt hafa á fundi nefndarinnar. Eins og flestum er ljóst hefur þetta mál verið lagt fram alloft og af mörgum ráðherrum og það er fjöldi fólks hér úti í samfélaginu sem hefur lagt á sig mikla vinnu við að veita okkur umsögn og mæta sem gestir til nefndarinnar.

Mig langar líka að nota tækifærið og þakka öllum nefndarmönnum í hv. allsherjar- og menntamálanefnd fyrir góða vinnu. Við höfum lagt mikla vinnu í þetta frumvarp. Við hófum þetta þing á því að fara í námsferðir til Danmerkur og Noregs og ræða m.a. um útlendingamál og átta okkur á því hvernig umræðan og staðan væri hjá þessum góðu nágrönnum okkar. Ég vil þakka fyrir þær góðu og málefnalegu umræður sem átt hafa sér stað inni í nefndinni svo og hér í 1. umr. og ég vænti þess að sjálfsögðu að svo verði áfram í dag og jafnvel á morgun líka.

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að við munum gera sem meiri hluti grein fyrir frekari gestakomum í framhaldsnefndaráliti en hv. þm. Jódís Skúladóttur hefur óskað sérstaklega eftir því að málið komi aftur til nefndarinnar fyrir 3. umr. og erum við í meiri hlutanum sammála um það og væntum þess að fá þá annað tækifæri til að fjalla um málið í nefndinni.

Mig langar líka aðeins að brýna okkur í því að við horfum svolítið á stóru myndina þrátt fyrir að hér sé þetta ákveðna frumvarp til umræðu, mikilvægt frumvarp með mjög mikilvægum breytingum til að straumlínulaga þennan málaflokk okkar. Ég held við verðum að átta okkur á því að þau lög sem við vinnum eftir í dag eru lög sem voru samþykkt þegar hér voru kannski nokkur hundruð manns sem voru að sækja um alþjóðlega vernd. Í dag eru það nokkur þúsund, 5.000 væntanlega á síðasta ári. Það eitt og sér ætti að segja okkur að það er ástæða til að aðlaga lagarammann til að tryggja það að þær stofnanir og það fólk sem fer með þennan málaflokk hafi þau tæki og tól sem þarf til að bregðast við í þessum málaflokki. Okkur ætti líka öllum að vera það ljóst hvernig umræðan hefur verið í löndunum í kringum okkur og í Evrópu allri þar sem fólk á flótta hefur aldrei verið fleira. Það er auðvitað nauðsynlegt að við á Íslandi tökum vel á móti þeim sem sækja um alþjóðlega vernd, tökum vel á móti þeim sem eru að flýja hryllilegar aðstæður og við þurfum að tryggja að innviðir okkar, kerfin okkar, hafi burði til að sinna því vel og vandlega.

Virðulegur forseti. Í nefndarálitinu tökum við það líka fram í meiri hlutanum að við væntum þess að fá skýrslu frá ráðherra málaflokksins að 12 mánuðum liðnum þar sem við viljum að farið sé yfir það hvort markmið þessa frumvarps hafi náðst. Ég tel að málefni útlendinga og fólks á flótta sé málefni sem verði til umræðu á næstu árum, bæði hvað varðar það sem við fjöllum um hér en ekki síður það sem lýtur að inngildingu eða aðlögun fólk sem hingað kýs að flytja. Ég held að við þurfum að huga að stærri breytingum hvað atvinnuþátttöku útlendinga varðar og ég fór ágætlega yfir það hér í 1. umr. að ég vænti þess að við sjáum frekari tilslakanir og breytingar hvað það varðar. Það er líka ágætt að árétta það að ríkisstjórnin hefur sett á laggirnar starfshóp og ráðherranefnd um útlendingamál og það er verið að vinna þar á mörgum og margþættum sviðum, bæði hvað varðar börnin í skólakerfinu okkar, varðandi þjónustuna, varðandi atvinnumálin og fleiri þætti.

Virðulegur forseti. Mig langar að enda á því að vitna í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins um útlendingamál en þar segir:

„Bjóðum þau velkomin: Taka ætti vel á móti þeim sem vilja koma hingað til lands til að lifa og starfa. Mikilvægt er að tryggja öryggi erlends verkafólks og virða réttindi þeirra. Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur fengið starf hér á landi og er með hreint sakarvottorð, að koma hingað og starfa. Ísland ætti að sýna frumkvæði í því að bjóða fleiri kvótaflóttamönnum hingað.

Verndarkerfið: Slá þarf skjaldborg utan um verndarkerfið og félagslega innviði í landinu. Á fáum árum hefur umsækjendum um vernd fjölgað verulega en hlutfallslega sækja mun fleiri um vernd hérlendis en í nágrannalöndum. Þessi þróun hefur leitt til mikils álags á félagslega innviði sem eru komnir að þolmörkum. Aðkallandi er að bregðast við með breytingum á útlendingalöggjöfinni. Í því sambandi er nauðsynlegt að samræma útlendingalöggjöfina við löggjöf nágrannalanda, með tilliti til málsmeðferðar og þjónustu við þá sem sækja um vernd. Útlendingalöggjöfin þarf á hverjum tíma að byggja á mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi þar sem smæð þjóðarinnar er viðurkennd.“

Virðulegur forseti. Ég er sannfærð um að það frumvarp sem við ræðum hér byggi einmitt á því; mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi.