Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:20]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Kannski er ástæða til að upplýsa hér, því það kom einmitt fram í umræðum áðan varðandi fundarstjórn forseta, að við fengum fulltrúa frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu á fund til okkar eftir að það höfðu komið upp ákveðnar vangaveltur um hvort það væri nauðsynlegt að skipta upp þessari grein, 33. gr. í lögunum, er varðar niðurfellingu þjónustunnar og undanþáguheimildirnar þar að lútandi. Það er alveg rétt eins og bent hefur verið á að við höfum brotið upp málaflokkinn og það er á herðum dómsmálaráðuneytisins að fjalla um þessar umsóknir og Útlendingastofnun og verkefni hennar. En nú er verkefni Útlendingastofnunar ekki lengur að veita þjónustuna heldur hefur hún þegar færst yfir til Vinnumálastofnunar. Það komu upp í kjölfarið ákveðnar vangaveltur um það þegar þessi miklu undanþáguákvæði eiga við og þá kannski sérstaklega ákvæðið er lýtur að því að fólk sé samstarfsviljugt og þess vegna sagði ég áðan í framsöguræðu minni að við gerðum breytingu þar sem við hnykktum á því að það væri lögreglan sem væri matsaðili í þessum tilfellum. Það lýtur í rauninni fyrst og fremst að því að vegna þess að það er lögreglan, í þessu tilfelli stoðdeild ríkislögreglustjóra, sem ber ábyrgð á endursendingum eða brottflutningnum þá eru þeir best til þess fallnir að vita hvort viðkomandi sé samstarfsfús. Samstarfsfús þýðir þá yfirleitt að aðstoða við það að afla skilríkja eða gagna eða annars sem til þarf til þess að brottflutningur geti átt sér stað. Eins og fram kom áðan er þetta fyrst og fremst til skýringar á því hvar verkefnin liggja og þar af leiðandi tel ég ekki að það sé einhver aukakostnaður sem fylgir þessu, hvorki fyrir ríkislögreglustjóra eða önnur embætti lögreglunnar. Ég vil ítreka það að hér er um mikið undanþáguákvæði að ræða gagnvart þjónustunni (Forseti hringir.) og m.a. er það þannig að ef útlendingur er samstarfsfús um það (Forseti hringir.) að koma sér aftur til upprunaríkis, eða þess ríkis sem á að vísa honum til, þá missir hann ekki þjónustuna (Forseti hringir.) þar til hann er sendur úr landi.