Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég gleymdi því í andsvari hér áðan varðandi þjónustuviðtölin sem fara ekki lengur fram hjá Útlendingastofnun að það er út af því að Vinnumálastofnun hefur tekið þann málaflokk yfir þannig að þjónustuviðtölin fara fram þar, svo það sé skýrt. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna en ég ætla að fá að vísa á bug öllum fullyrðingum um að hér sé um illa unnið frumvarp og mannvonsku að ræða. Við skulum hafa það í huga að þeir aðilar sem starfa að þessum málaflokki, hvort sem er inni í ráðuneytinu eða í Útlendingastofnun, og þekkja málaflokkinn hvað best hafa hér ítrekað í samstarfi við ráðuneyti málaflokksins komið fram með frumvarp. Þetta er í fimmta skipti sem frumvarpið er lagt fram og við höfum lagt mikla vinnu í það í allsherjar- og menntamálanefnd þannig að ég vísa öllum svona fullyrðingum á bug.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns þá er hún af svipuðum toga og við vorum að ræða áðan í andsvörum. Það er þannig á Íslandi að við höfum í gegnum tíðina fengið mikið af svokölluðum verndarmálum. Hv. þingmaður vísaði sérstaklega í það að fólk væri að koma frá Grikklandi. Nú skal það líka skýrt út hér að við erum ekki að senda fólk til Grikklands út af Dyflinnarákvæðinu. þ.e. bara af því að fólk hefur stoppað þar. Við erum að tala um fólk sem hefur fengið vernd í öðru ríki. Þegar fólk hefur fengið vernd er það eðlilega ekki á flótta því það er komið með verndina. (SDG: Nákvæmlega.) Þessi mánaðarregla varðandi 12 mánaða frestinn er auðvitað gerð fyrst og fremst til að ýta á að íslensk stjórnvöld og stofnanir okkar vinni hratt og vel í þeim málum og það er mikilvægt. En það má ekki vera þannig að það séu einhverjir gluggar í lögunum okkar sem hafa búið til einhvers konar hvata hjá fólki [Kliður í þingsal.] til þess að fara út úr kerfinu og fara í annað kerfi. — Mér þætti vænt um að hv. þingmaður gæfi mér orðið. Það er það sem fjallað er um þarna, (Forseti hringir.) að fólk geti ekki misnotað aðstæður með einhverjum hætti og komist inn í annað kerfi á þeim forsendum að það sé að draga málsmeðferð sína. (Forseti hringir.) Og það er auðvitað þannig að börn eru á ábyrgð foreldra sinna og foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum.