Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að þessi grein sem hv. þingmaður vísar í sé víst gerð til að auka skilvirkni án þess að ganga á réttindi fólks. Þegar hv. þingmaður spyr mig hvort mér finnist það í lagi að börn séu hér á landi þá langar mig að minna hv. þingmenn á bráðabirgðaákvæðið sem við erum að leggja fram með nefndaráliti okkar þar sem við erum einmitt að ná utan um börn sem dvelja hér ásamt foreldrum eða forráðamönnum sínum og hafa fallið utan kerfisins vegna Covid. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður, ég átta mig á því að við erum ósammála í mörgum meginatriðum þegar kemur að þessu frumvarpi sem hér um ræðir. (Gripið fram í.) Já, það er fullkomlega ljóst og það verður þá bara að fá að vera svo. En um alla umræðu um einhverja ómannúð og annað þá vísa ég bara til þess að við heimsóttum tvö af nágrannaríkjum okkar, Noreg og Danmörku, og við höfum svolítið verið að horfa til norsku leiðarinnar og mér fannst margir í nefndinni vera sammála um að þar væri margt gert mjög vel. Hér er um ákveðna málamiðlun að ræða þannig að þótt ég hafi talað fyrir því þegar við komum heim úr þeirri ferð að við ættum að taka út allar séríslenskar reglur þá erum við ekki einu sinni að gera það hér. (Forseti hringir.) Það er auðvitað ekkert óeðlilegt við það að tímafrestir séu virkir og hafi þau áhrif sem eru tilgreind í frumvarpinu.