Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir framsögu sína. Eitt af markmiðum þessa frumvarps er að auka skilvirkni í málaflokknum og ég tek fram að við erum einungis að tala um alþjóðlega vernd, við erum ekki að tala um útlendinga yfir höfuð, innflytjendur eða neitt slíkt. Við erum einungis að tala um alþjóðlega vernd, ekkert annað.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann telur að þetta frumvarp nái markmiðum sínum. Þegar við horfum á tölurnar frá síðasta ári, frá árinu 2022, þá voru innkomnar umsóknir hjá Útlendingastofnun um alþjóðlega vernd bara frá Venesúela 966; í nóvember komu 484 heildarumsóknir, þar af var tæplega helmingur frá Venesúela, 202, og fleiri umsagnir komu frá Venesúela en frá Úkraínu. Það komu einungis 166 frá Úkraínu. Hvernig stendur á því að þetta frumvarp og breytingartillögur meiri hlutans taka ekkert á úrskurðarnefnd, úrskurði kærunefndar útlendingamála? Þetta frumvarp mun ekki breyta neinu hvað varðar Venesúela. Ég get tekið dæmi um hvernig ástandið er t.d. í Bandaríkjunum. Bandaríkin hafa núna, sem er þúsund sinnum stærra samfélag en það íslenska, sett hámark á umsóknir frá Venesúela miðað við tæplega 25.000 umsóknir. Það myndi þýða að 25 umsóknir kæmu til Íslands. Í nóvember í fyrra komu 202 umsóknir.

Og önnur spurning sem mig langar að spyrja um og væri gott að heyra álit hv. þingmanns er þessi: Hvernig í ósköpunum á að taka á þessari skilvirkni ef við tökum ekki á stóra vandamálinu sem er Venesúela? Annað sem mig langar að spyrja um er: Hvernig í ósköpunum stendur á því að við erum enn þá með sérreglur í þessu frumvarpi og meira að segja er verið, eins og kom fram í andsvörum áðan, að útfæra betur sérreglu um 12 mánuðina, þ.e. ef umsækjandi hefur ekki fengið umsókn til efnismeðferðar innan 12 mánaða, hvað á þá að gera? Jú, það á að íþyngja íslenskri stjórnsýslu með því að skylda íslenska stjórnsýslu til að taka hana til efnismeðferðar (Forseti hringir.) og það er verið að baksa við það í frumvarpinu, í 8. gr. c-lið, til að reyna að hjálpa stjórnsýslunni að finna tilvikin sem eru til afsökunar.