Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ástandið í Venesúela, sagði hv. þingmaður. Íslenskt samfélag er ekki að veita fólki alþjóðlega vernd af því að ástandið í einhverju landi sé svo slæmt. Við erum að veita alþjóðlega vernd af því að það er rökstuddur ótti um það að einstaklingur sem sækir um alþjóðlega vernd þurfi á vernd að halda. Við erum ekki að fara að lesa í Economist að það sé mjög slæmt ástand í landinu, það sé fátækt og annað slíkt. Reyndar er Venesúela mjög sérstakt ríki. Það býr yfir meiri olíuauðlindum en Sádi-Arabía, mestu olíuauðlindum heims og gæði olíunnar eru miklu meiri. Ísland ber ekki ábyrgð á ástandinu í Venesúela svo það sé alveg klárt mál. Þetta frumvarp tekur ekki á því, á úrskurðum kærunefndar hvað þetta varðar, svo það liggi algjörlega ljóst fyrir. Vandamálið við þetta frumvarp er að það tekur ekki á vandamálinu. Ég hef unnið í íslenskri stjórnsýslu, unnið í ráðuneyti og undirstofnun, og ég get sagt þér það að þessi málaflokkur er í tómu rugli, algerlega tómu rugli.

Og varðandi fólkið sem var flutt hér þvingaðri brottför um daginn. (Forseti hringir.) Það voru sögusagnir um að fólkið hafi verið fljótara til baka en lögreglumennirnir sem fluttu það til Grikklands (Forseti hringir.) og það er komið aftur á framfæri ríkisins, aftur með umsókn sem er til meðferðar. (Forseti hringir.) Hvernig tekur þetta frumvarp á því fyrir næstu þvingaða brottför, (Forseti hringir.) þegar það er sent úr landi til Grikklands, (Forseti hringir.) verði það á undan lögreglunni heim?