153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir það hvernig ástatt er í Venesúela og guð forði okkur frá slíkum sósíalisma hér á Íslandi. En það er auðvitað þannig að öll Evrópuríki eru að vernda íbúa frá Venesúela. Það er bara þannig að við höfum veitt svokallaða viðbótarvernd á meðan önnur ríki hafa verið að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum og það hefur kannski verið umræða um hvort það hefði farið betur á því hér á landi ef það hefði verið raunin.

Hv. þingmaður var að vísa í þá umræðu sem verið hefur um að fólk sé komið hér jafnvel á undan þeim sem voru að fylgja því úr landi. Þegar um er að ræða Schengen-svæðið þá er það auðvitað þannig að fólk hefur ferðafrelsi innan Schengen-svæðisins. En þá vil ég minna á mikilvægi þess í þessu frumvarpi þegar við tölum um endurteknar umsóknir að það er ekkert slíkt ákvæði í dag í lögunum og þess vegna er mikilvægt að við förum yfir það ferli þegar fólk er að koma hér með endurteknar umsóknir, (Forseti hringir.) að það gengur ekki að fólk komi aftur og aftur með sömu umsókn. Það þarf að sýna að það sé bersýnilegur munur (Forseti hringir.) og aðstæður séu með einhverjum hætti breyttar.

Afsakið, frú forseti.