Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir samstarfið í allsherjar- og menntamálanefnd og umfjöllun um þetta mál. Það er auðvitað af ýmsu að taka í ræðu hv. þingmanns en mig langaði að byrja á að segja, virðulegur forseti, að ég er sammála hv. þingmanni þegar hún talar um mikilvægi þess að við séum með virka innflytjendastefnu og mikilvægi þess að ríkisborgarar utan EES geti sótt hér um atvinnuleyfi, og vísa ég þar í framsöguræðu mína áðan og það sem verið er að vinna á vettvangi ríkisstjórnar í þessum málum.

Mig langar aftur á móti að vísa algjörlega á bug þeim fullyrðingum að um sé að ræða einhverja útlendingaandúð Sjálfstæðisflokksins. Vil ég þá kannski vísa í það sem ég fór yfir hér áðan, í framsöguræðunni minni, stefnu míns flokks í þeim málum sem talar um að bjóða fólk velkomið, að taka eigi vel á móti öllum sem koma hingað til lands til að lifa og starfa. Við töluðum reyndar líka um að það þurfi að slá skjaldborg utan um verndarkerfið og félagslega innviði í landinu. Kannski hefði orðið skjaldborg átt að vera eitthvað annað svona í ljósi þess að ég er hér í andsvari við hv. þingmann Samfylkingarinnar.

Hv. þingmaður talar hér um umsögnina sem kom frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Þar komu fram ýmsar ágætisábendingar. Við fengum fulltrúa stofnunarinnar á fund til okkar og við fengum þá reyndar aftur á fund til okkar síðasta föstudag. Þar þökkuðu þessir ágætu fulltrúar fyrir það góða samstarf sem þeir hafa í gegnum tíðina átt við íslensk stjórnvöld og hve margt við hefðum gert gott í þessum málaflokki og ítrekuðu þá afstöðu sína — fóru reyndar líka yfir það að eitthvað kynni að hafa misfarist í þýðingum.

Virðulegur forseti. Ég næ ekki að spyrja um það sem ég ætlaði að spyrja um. En, hv. þingmaður, þegar við heimsóttum Noreg og Danmörku var talað um virka endursendingarstefnu. Hv. þingmaður talaði hér áðan um að við værum bara að fara droppa fólki eitthvert. Það erum við að sjálfsögðu ekki að gera. (Forseti hringir.) En er hv. þingmaður sammála mér í því að þeir sem koma hér og sækja um alþjóðlega vernd og fá ekki alþjóðlega vernd þurfi að yfirgefa landið?(Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður eðlilegt að fólk í þeirri stöðu sé hér á framfæri íslenskra skattgreiðenda svo árum skiptir?