Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í fyrsta lagi vil ég tala um skjaldborg um verndarkerfi en ekki skjaldborg um fólk á flótta, og það er miður. Í öðru lagi vil ég tala um stefnu Sjálfstæðisflokksins sem er í orði en ekki í verki. Það er alveg augljóst í hvert einasta sinn sem dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, og nú að undanförnu ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, hefur komið fram þá hafa þessi frumvörp til breytinga á útlendingalögum rýrt mannréttindi fólks á flótta. Það er ekki stefna um mannúð eða vernd eða að vefja fólk á flótta örmum, hreint ekki.

Þegar við erum að tala um virka endursendingarstefnu þá þýðir það að stjórnvöld eru með virkni í utanríkisþjónustunni sem tryggir það að það sé einhver móttaka. Við erum ekki með það. Við erum ekki með slíka innviði. Það eina sem gerist, þegar fólk getur ekki farið, er að það endar hér á götunni. Meiri hlutinn á Alþingi, stjórnarmeirihlutinn, er ekki að koma með neina lausn varðandi þá sem eru hér og komast ekki í burtu, enga lausn, ekki einu sinni fyrir börn sem eru hér árum saman, það er ekkert. Þið eruð að fella allt út sem getur tryggt það að einstaklingar sem eru í þessari stöðu eigi möguleika á að sækja þá alla vega um mannúðardvalarleyfi og eru þá á eigin framfærslu. Það er ekkert sem þið bjóðið upp á sem hleypir þessu fólki inn í virkni á eigin framfærslu, ekkert. (Forseti hringir.) Þið viljið heldur að það dagi hér uppi sem hvað; útlendingar í neyð.