Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Talandi um Noreg þá kom einmitt fram á ferðum okkar um Noreg og Danmörku að það hvarflar ekki að þessum ágætu nágrannaríkjum okkar og frændþjóðum að fara þá leið sem hér er verið að leggja til, að fella niður þjónustu hjá fólki. Þau vilja ekki fá þetta fólk undir brúna eins og sagt var. Það hvarflar ekki að þeim. (Gripið fram í.) Við erum hins vegar að taka ákvörðun um slíkt. Mér þykir óheppilegt að hv. þingmaður skuli blanda saman niðurfellingu þjónustu og því að fólk dagi hér uppi, af því það er ekki hægt að senda það til baka. Það er það sem ég var að tala um varðandi börnin og varðandi þær réttarbætur sem fyrrum ráðherrar gerðu með reglugerðarbreytingum, þ.e. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þegar þær breyttu tímafrestum fyrir börn sem höfðu í raun fest hér rætur, að stjórnvöldum bæri að taka mál þeirra til efnismeðferðar þegar þau hafa verið ákveðið lengi hér á landi, það er verið að fella þetta allt saman niður. (Forseti hringir.) Það er verið að skilja þau eftir. Þau eiga enga möguleika, alveg sama þó að búið sé að synja þeim en það er ekki hægt að brottvísa þeim.(Forseti hringir.) Þá eiga þau í staðinn enga framtíð, enga möguleika. Takk fyrir það.