Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:21]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hennar mjög svo kraftmiklu ræðu, hún vekur mann til umhugsunar um margt í þessu samhengi öllu saman. Mér finnst hráslagalegt að horfa til þess að fyrir utan dyrnar á Alþingi liggi ungmenni í svefnpokum sem eru að mótmæla því sem hér er að eiga sér stað. Einhverra hluta vegna sjá þau annan flöt á þessum útlendingalögum en sá meiri hluti sem hér er til staðar og eru tilbúin til að liggja úti í frosti til að vekja athygli á þeim sjónarmiðum sem þau bera í huga sér og vilja koma á framfæri.

Manni er eiginlega orða vant þegar maður áttar sig á mikilli alvöru þessa máls. Mig langar bara að nefna það sem hv. þingmaður segir hér: Þetta eru ekki bara útlendingar, þetta er fólk. Við erum að tala um fólk, við erum að tala um fólk sem á lítil börn, við erum að tala um lítil börn.

Ég minnist þess að í desember síðastliðnum fengum við nokkrir þingmenn í heimsókn þrjá unga drengi sem voru búnir að vera á flótta frá Afganistan í mörg, mörg ár; höfðu þvælst um í Miðausturlöndum, komu síðan til Tyrklands þaðan sem þeir voru reknir í burtu. Þegar sá yngsti var orðinn 18 ára flýðu þeir til Grikklands og af því að þeir enduðu í Grikklandi þá fá þeir ekki að vera hér. Þeir voru dauðir í augunum og það var allt farið, öll gleði. (Forseti hringir.) Maður spyr, hv. þingmaður, um mannúðina sem verið er að beita hérna.