Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:33]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að bæta því við að einstaklingur sem er hér ólöglegur í landinu og hefur fengið niðurstöðu í sínu máli, hann fær framfærslupening sem er um það bil 8.000 kr. á viku, en hann fær líka húsnæði. Þessi kostnaður er metinn að lágmarki um 300.000 kr. svo að það komi fram.

Hv. þingmaður talaði um að yfirsýn yfir málaflokkinn væri af skornum skammti. Hver er yfirsýnin yfir málaflokkinn núna? Hún er sú að hingað koma rúmlega 500 einstaklingar á mánuði og sækja hér um alþjóðlega vernd. Húsnæði er af skornum skammti. Mörg sveitarfélög eru komin að þolmörkum. Reykjanesbær hefur gefið það út að hann ætli ekki að taka á móti fleiri flóttamönnum. Félagslega kerfið er komið að þolmörkum. Þetta er yfirsýnin, þ.e. að við erum komin að þolmörkum í þessum málaflokki þegar kemur að því að veita þessa þjónustu. Húsnæðismarkaðurinn er sprunginn. Ég held að það sé bara brýnt að regluverkið hjá okkur sé hið sama og á Norðurlöndunum.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður óeðlilegt að við séum með sama regluverkið og Norðurlöndin? Hér eru sérreglur fyrir Ísland sem ekkert annað land hefur sem gerir það að verkum að hlutfallslega mun fleiri sækja um alþjóðlega vernd hér á landi en til dæmis á Norðurlöndunum. Við erum meira að segja að nálgast Noreg, ekki hlutfallslega í umsóknum heldur bara í fjölda heildarumsókna. Það bara segir sig sjálft að þegar regluverkið er veikara hér en í löndunum í kringum okkur þá fáum við fleiri umsóknir. Við sjáum það núna að rúmlega 500 manns hafa komið síðastliðna þrjá mánuði og sótt hér um vernd á sama tíma og við erum að horfa upp á þolmörk þessarar þjónustu sem við eigum að veita. En spurningin er þessi hv. þingmaður: Telur hv. þingmaður óeðlilegt að við séum með sömu reglur, sama regluverk, og nágrannalöndin okkar og líka önnur Evrópulönd?