Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur fyrir andsvarið. Frumvarpið er býsna góð málamiðlun. Verði breytingartillögur 2. minni hluta samþykktar þá held ég að við séum komin nokkuð í rétta átt. Ég tel að stærsta vandamálið í dag, sem við þurfum að taka á, sé það að með úrskurðum kærunefndar sé búið að opna gáttirnar fyrir fólk frá Venesúela vegna efnahagsástandsins. Ég gat ekki lesið úrskurðinn öðruvísi en að það sé verið að gera það með vísan til efnahagsástandsins. Breytingartillaga 2. minni hluta miðar að því að ekki eigi að leggja efnahagsástandið sem slíkt til grundvallar og þar er byggt á handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem ég las upp úr varðandi skilin á milli. Það er ekki nóg að mótmæla bara efnahagsástandinu, það verða að vera afleiðingar fyrir einstaklingana. Ég tel að það sé raunverulega stærsta málið. Það myndi í sjálfu sér auka skilvirknina mjög mikið, bara sú breytingartillaga, af því að þá værum við að taka á móti fólki frá Úkraínu, sem við eigum svo sannarlega að taka vel á móti, og svo myndum við taka almenna aukningu. (Forseti hringir.) Ég hefði viljað sérreglurnar burt.