Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:16]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Flokkur fólksins vill auka skilvirkni í þessum málaflokki, svo að það liggi algerlega fyrir. Flokkur fólksins telur líka að innviðir Íslands, þessa litla samfélags, ráði ekki við þetta. Við getum ekki ár eftir ár tekið á móti nokkrum þúsundum flóttamanna. Svíþjóð tók á móti 170.000 manns 2015 sem samsvarar 5.200 manns á Íslandi. Við getum ekki ár eftir ár verið að taka á móti 4.000–5.000 manns, við getum það ekki.

Hvort þetta frumvarp auki skilvirkni, ég tel að það gangi ekki nógu langt. Breytingartillögurnar miða að því að auka skilvirkni enn frekar, m.a. með því að losna við sérreglurnar, burt með íslenskar sérreglur, og líka það að taka úr sambandi úrskurði kærunefndar um útlendingamál sem lúta að Venesúela þar sem verið er að vísa til almenns efnahagsástands í landinu eins og kom fram í ræðu minni.

Flokkur fólksins hefur ekki tekið endanlega afstöðu um það hvort við munum samþykkja frumvarpið óbreytt en við munum að sjálfsögðu gera það verði breytingartillögurnar samþykktar. (Forseti hringir.) Við viljum ganga lengra, við viljum auka skilvirknina og breytingartillögur Flokks fólksins miða að því, algerlega. (Forseti hringir.) Þetta frumvarp tekur ekki á stóra vandamálinu, sem er Venesúela, stærsta vandamálinu, það má orða það þannig.