Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum bara fara yfir þetta kerfi aftur. Flóttamaður er sá sem býr við rökstuddan ótta. Einstaklingurinn býr við rökstuddan ótta um að verða ofsóttur vegna stjórnmálaskoðana, kynþáttar og svo framvegis. Það er flóttamaður. Viðbótarverndin eins og Norðmenn gerðu það — þeir vildu miða við einstaklingsbundnar aðstæður einstaklingsins. Það er að vera flóttamaður. Við getum farið að taka á móti þessum 100 milljónum manna og þessum 50 milljónum barna. Við getum það alveg, boðið þeim öllum að koma hérna gegnum „open border“. eins og mér heyrist hv. þingmaður vilja. Hann vill greinilega bara opna landamærin. Það er skoðun í sjálfu sér. Það er sjálfsagt að hafa þá skoðun. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Það að segja að efnahagsástandið sé slæmt og það sé óöld í landinu er ekki nægjanleg ástæða fyrir því að einstaklingurinn sé flóttamaður og að hann eigi rétt á að fá hæli á Íslandi, alþjóðlega vernd samkvæmt alþjóðaflóttamannasamkomulaginu eða viðbótarvernd. Það verður að vera tengt einstaklingnum. Svo einfalt er það. Takk fyrir.