Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:22]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir spurninguna. Þegar ég hóf mín afskipti af þessum málaflokki fyrir allnokkrum árum síðan þá var spáin fyrir árið að hingað kæmu 60 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá var sama viðkvæðið: Við getum ekki tekið á móti svo mörgum, hvað ef það koma 100? Síðan komu 100 og svo komu 200. Hvað koma margir núna, 2.000 eða 3.000? Ég fæ ekki séð að Ísland sé neitt að sökkva í svartan sæ þrátt fyrir miklar spár. Ég ætla að svara spurningunni með því að segja að í fyrsta lagi má að mörgu leyti segja að í prinsippinu eru landamærin að þessu leyti opin. Það getur hver sem er komið hingað og sótt um vernd, það er dálítið erfitt að komast hingað og þú mátt ekki koma hingað og allt það, en ef þetta er fjöldinn sem við erum að fá þegar við erum opinberlega búin að bjóða fólk velkomið frá löndum sem eru mjög illa stödd, þá erum við í góðum málum. Ég ætla að svara spurningunni með því að segja: Á meðan við tryggjum að innviðirnir hér séu í lagi fyrir alla Íslendinga og allt fólk og að þróun sé í innviðum, við séum að byggja upp hús, tryggja að heilbrigðiskerfið (Forseti hringir.) sé í lagi og annað, og atvinnu — hér er atvinna fyrir nóg af fólki og hér vantar fólk — þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af fjölda. Hingað koma þúsundir fólks frá Evrópu á hverju ári og enginn tekur eftir því. (Forseti hringir.) Það eru innviðirnir sem við eigum að vera að hugsa um, ekki leiðir til að henda fólki í burtu. Það er það sem kostar rosalega mikinn pening.