Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:25]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur aftur fyrir andsvarið. Þessi setning, hvað getum við tekið á móti mörgum, er náttúrlega alltaf svolítið gölluð. Höfum við einhvern tíma spurt: Hvað getum við tekið á móti mörgum Evrópubúum? Það er stundum talað eins og flóttafólk sé eitthvað öðruvísi en annað fólk. Flóttafólk er bara nákvæmlega eins og ég og þú. Þetta hljómar kjánalega en samt finnur maður sig knúinn til að endurtaka þetta. Flóttafólk vill lifa sjálfstæðu lífi, vill geta unnið fyrir sér, setja börnin sín í skóla og vill jafnvel fara í skóla. Það er alveg nákvæmlega eins og við hin og allir Evrópubúarnir sem eru að koma hingað. Munurinn er sá að við erum búin að byggja upp kerfi sem gerir fólk í þessari stöðu oft mjög viðkvæmt framan af í málsmeðferðinni en það er ekki síst vegna þess hvernig við komum fram við það. Það kostar eitthvað ákveðið en að taka á móti flóttafólki þýðir ekkert annað en að veita því rétt til dvalar. Stundum er ég spurð: Af hverju sækir það ekki bara um dvalarleyfi? Það er nákvæmlega það sem það er að gera. Flóttafólk, þegar það sækir um alþjóðlega vernd, er bara að sækja um dvalarleyfi og ekki um neitt annað. Það á rétt á tiltekinni þjónustu og tiltekinni sérstakri aðstoð út frá persónulegum aðstæðum en er ekki að sækja um neitt annað en réttinn til að fá að vera hér og byggja sér upp líf.