Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:32]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Ástæðan fyrir því að ég myndi telja það vera mannréttindabrot er sú að dómstólar sem dæma um mannréttindi hafa komist að þeirri niðurstöðu að það séu ákveðin lágmarksréttindi. Það er ekki mikil þjónusta, það eru svona lágmarksréttindi til að halda sér á lífi, einhvers konar húsaskjól og einhvers konar matarbiti sem verið er að tala um þar.

Það sem mig langar hins vegar frekar að víkja að er hversu óskýrt það er í þessu frumvarpi hvað tekur við hjá einstaklingum þegar búið er að synja þeim um vernd og þeim ber að fara af landi brott og annað slíkt, þá eru þau svipt þeirri gríðarlegu þjónustu sem hælisleitendum býðst, sem eru samtals 32.000 kr. á mánuði í framfærslu og síðan eitthvert herbergi sem húsaskjól. Ég fæ ekki betur séð af lögunum en að það sé meiri þjónusta sem tekur við ef þú telst vera útlendingur í neyð. En þetta er allt mjög óljóst, þetta er allt mjög óskýrt. Okkar löggjöf er öll mjög óskýr. Það kom alveg skýrt fram í máli t.d. fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins (Forseti hringir.) að það þarf í rauninni að banna heilbrigðisstofnunum að veita fólki t.d. neyðaraðstoð til að það teljist vera raunverulegt mannréttindabrot. Ég veit ekki hvort ég er sammála því, (Forseti hringir.) en það er mjög óljóst hvað er átt við í þessu frumvarpi, hvað er í gangi. Það sem ég tel að þyrfti að gera líka, til þess að svara spurningu þingmannsins, er að gera mat á frumvarpinu. Þetta mat hefur ekki farið fram, (Forseti hringir.) þ.e. mat á því hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá hefur ekki farið fram. (Forseti hringir.) Það skiptir minnstu máli hvað mér finnst um það eða hvað hv. þingmanni finnst um það. (Forseti hringir.) Þetta mat hefur ekki farið fram og það er vegna þess að meiri hlutinn þverneitaði að láta fara fram. Og hví skyldi það nú vera?