Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 53. fundur,  23. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[19:38]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Það ætti kannski að vera kjarni málsins í meðferð þessara umsókna hvað fólk er að flýja, hvort þau teljist vera flóttamenn og þess háttar. Það sem kannski skýtur svolítið skökku við, og ég held að við hv. þingmaður getum verið sammála um að sé öfugsnúið í þessu kerfi, er að þorri þeirra mála sem við erum að tala um, og þorri þeirra mála sem þessar lagabreytingartillögur beinast að, eru mál þar sem er ekki einu sinni búið að spyrja fólk hvað það sé að flýja, hvaðan eða hvers vegna. Þetta eru mál sem hafa ekki verið tekin til efnislegrar meðferðar hér á landi. Það er verið að vísa fólki til Grikklands eða Ungverjalands eða eitthvert annað þangað sem það telur sig ekki hafa lífsviðurværi og annað án þess að umsóknin sé opnuð. Að mínu mati væri miklu meiri skilvirkni náð með því að hætta þessu að þessu marki og taka upp t.d. það sem Þýskalandi gerir og önnur ríki sem eru ekki með þessi sérákvæði sem heimila það eða skylda það en gera það samt, að taka þessi mál til efnismeðferðar, taka bara þetta viðtal við fólk og spyrja: Ertu flóttamaður? Á daginn kemur að þorri þessa fólks er flóttamenn. Þar langar mig að nefna tillögu mína sem ég hef ítrekað lagt til jafnvel við kærunefndina, hún tók ekkert vel í það, en það er að beita 47. gr. laganna með fólk sem hefur fengið vernd, t.d. í Grikklandi. Þar er stjórnvöldum í rauninni heimilað að viðurkenna einfaldlega þá vernd sem önnur (Forseti hringir.) ríki hafa veitt einstaklingi. Þannig mætti spara heilmikinn tíma og kostnað í málsmeðferð þegar ekki er talin ástæða til að senda einstakling til Grikklands þá fær hann vernd. Við þurfum ekki að spyrja aftur af hverju hann fór frá Sýrlandi. Við vitum vel hvers vegna hann gerði það.