Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Virðulegi forseti. Á COP27 ráðstefnunni í nóvember síðastliðnum var samþykkt að stofna nýjan tap- og tjónasjóð, eða eins og hann heitir á ensku, með leyfi forseta, „loss and damage fund“. Samþykktin markar sigur í langvinnri og erfiðri baráttu, sérstaklega hjá litlum og viðkvæmum ríkjum, og er mikilvægt skref í átt að réttlæti í loftslagsmálum. Engu að síður er mikilvægt að hafa í huga, eins og hæstv. ráðherra benti á, að þessi sjóður verður ekki starfhæfur fyrr en eftir mörg ár og hvað þá að hann verði fjármagnaður. Tap og tjón í sinni víðustu skilgreiningu nær yfir öll neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, þar með talið veðurhamfarir eins og fellibylji og flóð en líka hægfara þróun eins og hækkandi hitastig og súrnun sjávar. Umfang taps og tjóns af völdum loftslagsbreytinga mun aukast og er sjóðnum því ætlað að breikka og innleiða nýstárleg fjármögnunartæki til að hjálpa þróunarlöndum að mæta kostnaði. Í kjölfar eldgossins í Vestmannaeyjum 1973 og snjóflóðanna í Neskaupstað árið 1974 komum við Íslendingar á fót kerfi viðlagatryggingar sem húseigendur greiða fyrir. Þótt tryggingar af þessu tagi séu fjármagnaðar að hluta til með iðgjöldum þurfa flest hamfaratryggingakerfi á einhvers konar ábyrgð eða stofnfjárframlagi frá hlutaðeigandi stjórnvöldum að halda. Svæðisbundnum hamfaratryggingakerfum hefur einnig verið komið á fót en þau dreifa áhættunni yfir nokkur lönd. Sum þeirra notast við blöndu af svokölluðum hamfaraskuldabréfum sem kallast á ensku, með leyfi forseta, „catastrophe bonds“, viðlagatryggingum og ábyrgðum sem ríkisstjórnir gefa út. Á þessu sviði gæti Ísland haslað sér völl, sér í lagi í samvinnu við önnur smáríki og eyjaþjóðir en þau gleymast oft í alþjóðaumhverfinu af því að það sem stóru þjóðirnar skilgreina sem lítið áfall eru oft stórhamfarir fyrir litlar og fámennar eyþjóðir.