Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er stundum talað eins og allar harðar loftslagsaðgerðir séu ill nauðsyn til að koma í veg fyrir að eitthvað geti gerst í framtíðinni. En þá er okkur bara dálítið hollt að muna að nú þegar líða milljónir manna vegna loftslagshlýnunar. Ég sótti, ásamt hv. þm. Bergþóri Ólasyni, Alþjóðaþingmannasambandsfundinn í tengslum við COP27. Þar var rætt töluvert um tap- og tjónasjóðinn og þar flutti Sherry Rehman, loftslagsráðherra Pakistan, kannski áhrifamestu ræðuna. Hún sagði frá undangengnum hamfaraflóðum í landinu, flóðum sem vísindamenn telja nánast öruggt að stafi af loftslagshlýnun. Hún sagði að 2.000 manns hefðu látist, flóðin hafi haft áhrif á 33 milljónir manna, 2.200 skólar skemmst og auk þess séu hundruð heilbrigðisstofnana skemmdar eða ónýtar, 13.100 km af vegum, 431 brú ónýt og mikið af búfénaði drepist, á aðra milljón. Fólkið flykktist inn í borgirnar þar sem enginn matur er og ekkert húsaskjól að finna. Hún bendir á að loftslagsbreytingarnar séu ekki aðeins fræðilegur möguleiki heldur blákaldur og nöturlegur veruleiki, m.a. í Pakistan, og verði ekki brugðist hratt og af öryggi muni önnur lönd lenda í því sama.

Fjarvera stóru iðnríkjanna frá þessu fundi var sláandi, rétt eins og þeim komi ekki þessar hörmungar við og þau beri engin ábyrgð. Þá er nærtækt að vitna til lokaorða pakistanska loftslagsráðherrans sagði með leyfi: Það sem gerðist í fyrra í Pakistan mun að óbreyttu ekki takmarkast við Pakistan.