Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:54]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér ættum við að skiptast á skoðunum um loftslagsmál sem oftast, enda taka þau orðið mikið pláss, ekki bara í nýjum stjórnarsáttmála heldur í huga og hjörtum Íslendinga og því yngri, þeim mun meira pláss. Málshefjandi, hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, á því þakkir skildar fyrir framtakið og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir hans yfirferð hér í upphafi umræðunnar. Við ræðum gjarnan um metnaðarfull markmið okkar Íslendinga í loftslagsmálum og þau eru mjög metnaðarfull og það þrátt fyrir þá staðreynd að ef allar þjóðir væru eins og við þegar kemur að loftslagsmálum þá værum við ekki að glíma við alheimsloftslagsvanda. En við ræðum kannski minna um raunhæfar leiðir til að ná þessum metnaðarfullu markmiðum og þar skipta orkuskiptin höfuðmáli. Þar þurfum við heldur betur að bretta upp ermarnar, framleiða meiri orku, einfalda regluverk og skipuleggja og bæta flutning. Hæstv. ráðherra hefur blessunarlega verið skýr þegar kemur að þessum málum. Orkuskiptin munu ekki stranda á honum. En aðgerðirnar, leiðirnar til að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum eru fleiri. Við þurfum að auka loftslagstengda fjárfestingu, fjölga störfum með áherslu á græna nýsköpun, aukna framleiðni og virkjun hugvits til þess að stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda, hringrásarhagkerfi og kolefnishlutleysi. Það er því sönn ánægja og áskorun að fá að gegna formennsku í Græna dreglinum, stýrihópi um loftslagstengd græn nýfjárfestingarverkefni.

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan er loftslagsvandinn alheimsvandi og verkefnið því sameiginlegt. Það gleymist stundum, t.d. þegar rætt er um að flytja framleiðslu milli landa til að fegra bókhald og ná landsmarkmiðum. Það yrði sannarlega skammgóður vermir enda veltur árangurinn á heimsvísu á samstarfi allra ríkja. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur aftur fyrir að hefja þessa umræðu og öðrum fyrir góð innlegg í þarfa umræðu.