Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[14:59]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í minni fyrri ræðu er árangur í loftslagsmálum samvinnuverkefni. Því eru grænir hvatar til atvinnulífsins og til grænnar nýsköpunar sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á þýðingarmiklir en auðvitað ekki síður frumkvæði sem kemur frá fyrirtækjum um land allt. Það eru t.d. frábærar fréttir að stefnt sé að framleiðslu kolefnishlutlausrar steypu og að í þróun sé tækni sem mun valda stökkbreytingu varðandi losun kolefnis frá álverum, svokölluð óvirk rafskaut. Með notkun þeirra yrði kolefnislosun við rafgreiningu súráls úr sögunni og þannig mætti minnka losun koltvísýrings á Íslandi um allt að 30%. Þá er mikilvægt að horfa til þess að öll ræktun bindur kolefni í gróðri. Auk þess dregur ræktun gróðurlítils eða rofins lands úr losun kolefnis frá landi út í andrúmsloftið þannig að ef rétt er á haldið gætu íbúar í dreifbýli nýtt landið sem þeir hafa til umráða til kolefnisbindingar og þar með skotið viðbótarstoðum undir afkomumöguleika sína. Ásókn í land til kolefnisbindingar er samhliða þessu að aukast þannig að þetta gæti eins farið á þann veg að íbúar í dreifbýli geti ekki keppt um land og atvinnutækifæri. Einmitt þetta atriði kallar á skýra stefnu og betri þekkingu á bókhaldi landnotkunar en ég var einmitt að leggja fram fyrirspurnir til hæstv. ráðherra varðandi það málefni. Viðarnytjar þarf líka að þróa áfram hér á landi, þar er þegar verið að auka sjálfbærni einstakra byggða og styrkja hringrásarhagkerfið með kyndistöðvum og afurðavinnslu. Margt fleira væri hægt að nefna eins og kolefnisbindingu með Carbfix.

Að lokum vil ég nefna að við Íslendingar þekkjum mikilvægi hamfarasjóða eins og ofanflóðasjóðs og náttúruhamfaratrygginga og eigum því ýmsu að miðla inn í alþjóðlegan hamfarasjóð og samstarf í kringum hann.