Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[15:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég vil í seinni ræðu minni koma örstutt inn á samhengi hlutanna og það hversu ómarkviss umræðan á heimsvísu virðist oft verða. Ég vil fagna því sérstaklega sem fram kom í svari hæstv. umhverfisráðherra hér við byrjun umræðunnar, að það yrði tekin afstaða til þátttöku í sjóðnum þegar regluverk hans lægi fyrir. Mig óaði við svörum hæstv. ráðherra fyrst eftir ráðstefnuna þar sem var hægt að lesa út úr þeim að Ísland tæki þátt í sjóðnum, sama hvernig samþykktir hans litu út. Það er ekki forsvaranleg meðferð á fjármunum hins opinbera að nálgast mál með þeim hætti þannig að nú er þó komin pressa á að menn sýni alla vega samþykktirnar áður en fjármunir renna þar inn.

Í umræðunni í Egyptalandi gátu fulltrúar varla opnað munninn öðruvísi en að lýsa því sem svo að við værum algjörlega á síðasta snúningi, við værum að fara fram af bjargbrúninni, það yrði að ganga til aðgerða ekki seinna en á morgun. Svo var eiginlega niðurstaða þessa risafundar að stofna þennan tap- og tjónsjóð og hvenær verða samþykktirnar skrifaðar? Eftir nokkur ár. Þetta er af sama meiði og fjármálastofnun sem eyðir öllu sínu markaðsfé í að útskýra það hversu góð og vistvæn hún er og fylgi markmiðum í loftslagsmálum af því að annars sökkvi allt í sæ, en á sama tíma lánar hún 40 ára lán til kaupa á einbýlishúsum á sjávarjörðum. Það fer ekki saman einhvern veginn það sem fólk og fyrirtæki oft á tíðum eru að segja og það sem er verið að gera. Ég vil, eins og ég segi, fagna þessari afstöðubreytingu hæstv. ráðherra að það skuli í öllu falli bíða eftir að sjá með hvaða hætti þessi tap- og tjónsjóður verður formaður áður en íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til framlagningar fjármuna í hann.