Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[15:11]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem hefur á köflum verið mjög upplýsandi. Ég verð samt að lýsa vonbrigðum mínum með svör ráðherrans þar sem ekki var hægt að lýsa því hvernig við ætluðum að ná 55% samdrætti fyrir 2030. Ég skil það þannig að afrakstur geiranálgunarinnar, loftslagsvegvísarnir, þurfi fyrst að koma fram og síðan verði aðgerðaáætlunin uppfærð í framhaldinu. Ég velti fyrir mér hversu langan tíma það megi taka að mati hæstv. ráðherra.

Það er einnig ekki alveg víst hvort Ísland ætlar að taka þátt í fjármögnun hamfarasjóðsins. Ég geri mér grein fyrir því að það á eftir að skrifa úthlutunarreglurnar en það er mjög mikilvægt að gefa siðferðilegt, skýrt merki um það að við séum tilbúin til að axla ábyrgð þar eins og annars staðar í þessum málum.

Það er auðvitað þannig, frú forseti, að smæð hagkerfisins hér, þær náttúruauðlindir sem við búum yfir og sveigjanleiki þess kerfis sem við búum við gefur okkur forskot. Það gefur okkur forskot í loftslagsmálum og það gefur okkur forskot til þess að sýna með góðu fordæmi hvað er hægt að gera. Það hefur siðferðilega þýðingu í samtalinu um það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og koma í veg fyrir hamfarahlýnun og það skiptir máli að fullvalda ríki sem er aðili að loftslagssamningnum geri það eins og best verður á kosið, ég tala nú ekki um eitt ríkasta land í heimi. Ég vona að hæstv. ráðherra nái að svara spurningum mínum betur. Það er því miður þannig, eins og loftslagsráð hefur bent ítrekað á, að markmið okkar og útfærsla þeirra eru óljós og ég leyfi mér að lokum að gera orð stöðumats loftslagsráðs að mínum: Klukkan tifar.