Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

Niðurstöður COP27.

[15:13]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og ég vona að hún verði eins oft og mögulegt er hér í sölum þingsins. Mér finnst umræðan vera að þróast í rétta átt. Þá er ég að vísa í það að menn séu komnir á þann stað að átta sig á því að það verði að fara saman hljóð og mynd. Og af því að ég er hér hvattur til dáða þá hvet ég líka hv. þingmenn til dáða þegar kemur að loftslagsmálum. Það verður að fara saman hljóð og mynd.

Svo ég taki nú jákvæða punktinn þá vil ég nota tækifærið og þakka öllum hv. þingmönnum sem greiddu atkvæði með rammanum. Þetta verkefni er gríðarstórt og sumir hv. þingmenn koma hér og eru búnir að gefast upp og segja að þetta sé hægt. Auðvitað er þetta hægt, en þetta er mjög erfitt. Þetta snýst um það að við erum að taka út jarðefnaeldsneyti og setja græna orku í staðinn. Í níu ár kláruðum við ekki það sem á að gera mjög reglulega, þ.e. rammaáætlun, sem er grunnurinn að því að framleiða græna orku. Sumir þingmenn treystu sér ekki til að gera það núna í vor og ég veit ekki hvernig staðan væri núna í þessu erfiða og stóra verkefni ef meiri hluti hv. þingmanna hefði ekki klárað það. Það er grunnurinn að því að við getum náð þessum árangri. Þannig að þegar hv. þingmenn koma hér, og ég hvet þá til að veita mér og ríkisstjórninni aðhald, menn mega skamma mig alveg eins og þeir vilja, það er ekkert vandamál, en það verður að fara saman hljóð og mynd. Það verður að fara saman hljóð og mynd því að við þurfum græna orku til að ná þessum háleitu markmiðum. En við þurfum ýmislegt meira. Það er áhugavert að hér kom hv. þingmaður fram og vakti athygli á því sem vel hefur gengið, því að við þurfum á öllu okkar hugviti á að halda og við þurfum samstöðu allra til þess að ná þessum háleitu markmiðum. Ég vonast til þess, virðulegi forseti, að það verði góð (Forseti hringir.) samstaða um það. Mér fannst umræðan góð, mér finnst hún vera í rétta átt. En ég hvet hv. þingmenn hér, sem eru mættir til að gefast upp fyrir verkefninu, að hugsa til þeirra sem á undan gengu, (Forseti hringir.) sem fóru í orkuskipti 1 og orkuskipti 2. Þá er ég tala um rafvæðinguna og hitaveituvæðinguna. Það voru risaverkefni (Forseti hringir.) sem okkur Íslendingum tókst að framkvæma með samstöðunni og áræðninni og við eigum (Forseti hringir.) enn þá og kannski sem aldrei fyrr að geta gert það.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir ræðumenn á að virða ræðutíma.)