Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Frú forseti. Nú ræðum við enn og aftur litla útlendingafrumvarpið. Það er ekki lagt fram í fyrsta sinn, ekki í annað sinn, ekki þriðja sinn og ekki í fjórða sinn heldur í fimmta sinn; þetta ræksni, þetta útþynnta og örvilnaða frumvarp, þessi svokallaða málamiðlun milli skynsemishyggju og fullkominnar vitleysu, þetta sýnishorn yfirgefinna áforma umvafið afsökunum og kerfisflækjum, þessi uppgjöf. Við höfum rætt þetta ítarlega hér í þinginu og stefnir í ítarlega umræðu enn á ný. Þó gerir þetta mál eiginlega ekkert, a.m.k. mjög lítið, til að takast á við umfang þess vanda sem við er að eiga. Þetta er óskaplega aumt og meira að segja nú í fimmtu tilraun kemur á daginn að í vinnu nefndarinnar hefur málið enn verið þynnt út miðað við nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Hafði þó meginatriðið verið tekið út úr málinu á milli fjórðu og fimmtu framlagningar, væntanlega í von um að þá yrði auðveldara fyrir ríkisstjórnina að koma málinu í gegn, ríkisstjórn sem greinilega á erfitt með að koma málum í gegnum þingið, a.m.k. þegar þingflokkur Vinstri grænna gerir athugasemdir við þau. Önnur mál, mál frá Vinstri grænum, fljóta hér í gegn og hv. þingmenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks loka augunum og láta eins og þeir sjái ekki hvað er að gerast.

Með þessu frumvarpi er þó leitast við, eða var a.m.k., að bæta úr þeim stórkostlegu vandræðum sem hælisleitendakerfið á Íslandi hefur verið að fást við þótt lítið sé orðið eftir af því, verður nú að segjast. Og þótt það segi hér í nefndarálitinu, sem ég mæli fyrir, að við leggjum til að málið verði samþykkt þá fór ég að hafa efasemdir eftir að hafa hlustað á og lesið nefndarálit meiri hlutans, efasemdir um hvort þetta væri yfir höfuð til bóta því að þarna er enn verið að auka á flækjurnar og gera kerfið á margan hátt jafnvel enn óskilvirkara en nú er.

Aðstæður kalla á grundvallarendurskoðun útlendingalöggjafarinnar á Íslandi. Nú er ásókn í hæli á Íslandi líklega orðin sú mesta í Evrópu, er að líkindum orðin hlutfallslega tífalt meiri en til að mynda í Danmörku og Noregi og innviðirnir ráða ekki við þetta. Meira að segja ríkislögreglustjóri sá ástæðu til þess að vara við því að innviðir réðu ekki við þennan mikla straum. Og hvað kemur frá ríkisstjórninni til að takast á við þetta? Fimmta tilraun með þetta litla útþynnta útlendingafrumvarp. Í þeim breytingum sem nú birtast í nefndaráliti meiri hlutans er að finna eitt og annað sem þarf að huga verulega að og velta fyrir sér hvort sé til bóta eða ekki. Ég ætla að nefna dæmi. Þar er gert ráð fyrir ýmsum undantekningum, hvers konar undantekningum, allt til þess fallið að flækja málið, en það er sérstaklega fjallað um börn.

Í ráðherratíð minni fór ég í heimsókn til Líbanon og Möltu til að kynna mér flóttamannavandann af eigin raun. Þar fékk maður að hitta fólk sem starfar við þetta alla daga og heyra álit þess beint, ekki það sem það segir í viðtölum eða opinberlega en bara raunveruleikann. Eitt af því sem við vorum sérstaklega vöruð við, Íslendingar, var að hafa sérstakar reglur um börn. Þetta kann að hljóma undarlega á einhvern hátt eða jafnvel kaldlynt en það var ekki merkingin. Þessir sérfræðingar sem vinna við þetta alla daga bentu á að Vesturlönd væru að setja börn víða um heim í verulega hættu með því að hafa sérstakar undanþágur og þar með sérstaka hvata til þess að börn séu send af stað í hættuför, stundum á eigin vegum, þó að ekkert ungt barn gangi frá Afganistan til Evrópu á eigin vegum, en allt of oft í fylgd með stórhættulegum glæpamönnum sem skila börnunum jafnvel ekki á áfangastað eða hneppa þau í einhvers konar ánauð eða þrælkun, fara a.m.k. með þau í mikla hættuför. Við fengum að heyra þessa viðvörun: Ekki vera að búa til þennan hvata, ekki hvetja til þess að börn séu send á undan sjálf eða í fylgd með einhverjum sem stundum eru mjög vafasamir menn. En það er með þetta eins og svo margt annað í þessum málaflokki og raunar í nefndaráliti meiri hlutans hér að það er ekki litið á heildarmyndina, það er ekki litið á raunveruleg áhrif. Þetta snýst um umbúðirnar. Menn nota mikið orð eins og mannúð. En er það mannúð að viðhalda kerfi hér á Íslandi sem gerir Ísland að söluvöru glæpagengja? Þetta er spurning sem ég er ekki að finna upp. Ég hef vísað í þetta áður. Þetta eru orð forsætisráðherra Danmerkur, sósíaldemókrata, sem hefur innleitt gjörbreytingu á stefnu Dana í þessum málaflokki og ekki hvað síst á þessum forsendum. Danmörk má ekki verða söluvara glæpagengja, sagði forsætisráðherrann. En með þeim breytingum sem hafa verið gerðar hér á Íslandi, með þeim skilaboðum sem hafa verið send út, hefur Ísland verið gert að söluvöru glæpagengja. Við erum aldeilis komin á kortið, líklega eftirsóttasti áfangastaður álfunnar hlutfallslega.

Við þessar aðstæður verður maður að lýsa undrun á því að ríkisstjórn veigri sér, að því er virðist, yfir höfuð við að koma fram með mál sem þó er búið að leggja fram fjórum sinnum áður og var ætlað að taka á þessum vanda. Það eru engar lausnir. Framsögumaður nefndarálits meiri hlutans, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, sýndi okkur nýjar umbúðir eða umbúðir sem voru hannaðar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins með ályktun um þennan málaflokk sem er nánast nákvæmlega eins og ályktun Samfylkingarinnar í málinu, umbúðamennska, engar raunverulegar lausnir, ekkert sem gefur til kynna að menn geri sér grein fyrir raunverulegu umfangi vandans. Þetta birtist svo í því hvernig þetta frumvarp hefur þróast. Fyrrnefndur hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir nefndi sérstaklega að það væri ekki einu sinni verið að taka út allar séríslenskar reglur sem hafa verið hvati, segull eins og hæstv. dómsmálaráðherra kallaði það, það væri ekki einu sinni verið að taka út alla seglana sem gera Ísland að áfangastað. Það átti á einhvern hátt að vera afsakandi fyrir þetta frumvarp, væntanlega beiðni um að þingið hleypti því þá í gegn fyrst það gengi ekki nógu langt. Það væri í raun ekki að taka á vandanum. Svo var talað um málamiðlun og að það væru ólíkir pólar í þessu máli og þetta ræksni sem þetta frumvarp er orðið væri einhvers konar tilraun til að miðla málum þar á milli. Með öðrum orðum fara milliveginn milli skynsemishyggju og fullkominnar vitleysu. Er það þannig sem þessi ríkisstjórn ætlar að fljóta áfram fremur en að taka forystu, sýna pólitíska stefnu og bregðast við einhverjum af stærstu viðfangsefnum samtímans með aðferðum sem virka?

Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson mælti fyrir nefndaráliti og benti m.a. á að ástandið í Venesúela væri ekki á ábyrgð íslenskra stjórnvalda eða Íslendinga yfir höfuð. Það er auðvitað rétt. Það er ekki á ábyrgð Íslendinga að það skuli vera hrein vinstri stjórn í Venesúela og þetta land, með öll þau tækifæri og þær auðlindir sem það hefur yfir að ráða, skuli búa við fátækt og óheillavænlegt stjórnarfar. Engu að síður, þrátt fyrir að þetta sé ekki á ábyrgð okkar, hafa talsmenn þessa frumvarps varið sérreglur um eitt tiltekið land á þeim forsendum að þar séu lífskjör og öryggi minna en á Íslandi, sem er sannarlega rétt. En hversu mörg lönd gætum við talið upp þar sem lífskjör og öryggi er miklu minna en á Íslandi, líklega flest lönd í heiminum, og hversu mörg lönd gætum við nefnt þar sem staðan er, hvað þetta varðar, sambærileg og í Venesúela?

Hvað ef þessi úrskurðarnefnd í útlendingamálum, sem nú virðist hafa fengið hálfgert löggjafarvald — stjórnmálamennirnir hafa vísað valdinu frá sér til ókjörinna fulltrúa — ályktaði sem svo að til að mynda allir sem kæmu frá Pakistan, sem er á svipuðum stað hvað varðar lífskjör og öryggi og Venesúela, ættu rétt á hæli á Íslandi? Eða El Salvador eða Hondúras, Bangladess, Kongó — við gætum haldið lengi áfram? Lönd þar sem búa hundruð milljóna manna og nefnd úti í bæ gæti samkvæmt þessu ályktað sem svo að allir sem kæmu til Íslands frá þessum löndum ættu rétt á hæli. Þetta er kerfi, þetta er fyrirkomulag sem gengur ekki upp því að í því felst engin tilraun til að líta á heildarmyndina. Kostnaður við þennan málaflokk hefur stundum verið nefndur og það vakti athygli nú að hann væri allt í einu kominn upp í 10, líklega 15 milljarða, úr rúmlega hundrað eða nokkur hundruð milljónum fyrir fáeinum árum. En jafnvel þá, og sérstaklega núna, er raunverulegur kostnaður af þessu falinn því að leitast er við að telja einungis með þann kostnað sem fellur beint á þjónustu á þessu sviði. Aukinn kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið, löggæslu, menntakerfið — þetta er allt falið. Þetta er falið að því er virðist með vilja vegna þess að menn forðast það að ræða innihald þessa málaflokks. Og hvað þýðir það? Það þýðir að við missum stjórn á honum. Ástandið er orðið stjórnlaust, eins og hæstv. dómsmálaráðherra ítrekaði í gær eða fyrradag þegar hann sagði hreint út: Ástandið er stjórnlaust. Einu viðbrögðin sem við sjáum er fimmta tilraun með útþynnta litla útlendingafrumvarpið. Það þýðir að ástandið verður enn stjórnlausara, heldur áfram að versna. Það þýðir líka, sem kannski skiptir mestu máli í þessu öllu, að jafnt og þétt verður enn erfiðara fyrir okkur Íslendinga, 360.000 manna þjóð, eða hvað við erum, eftir því hvernig er talið, að gera eins mikið gagn og við mögulega getum, gera sem mest gagn fyrir það fólk sem er í mestri neyð og þarf mest á hjálp að halda. Ónýtt kerfi hefur gert Ísland að söluvöru glæpagengja. Og enn og aftur eru engir tilburðir sýndir til að takast á við það. Og þetta gerist hratt.

Þegar Íslendingar tóku fyrst við hópi flóttamanna, kvótaflóttamanna, frá Ungverjalandi eftir innrás Sovétríkjanna 1956, komu hingað einhverjir tugir Ungverja, um 30 manns, ef ég man rétt. En frá þeim tíma, frá 1956–1991, þegar síðasti hópur Víetnama kom hingað sem kvótaflóttamenn, á 35 árum, komu ekki fleiri en svo að á einum mánuði nú á síðasta ári mættu hér fleiri hælisleitendur sem nú eru lagðir að jöfnu við kvótaflóttamenn en á 35 árum; og ekki bara fleiri heldur mættu tvisvar og hálfu sinni fleiri til landsins á einum mánuði en á 35 árum þar áður. Eftir stofnun flóttamannaráðs árið 1995 var lagt í mikla vinnu við að tryggja að við Íslendingar tækjum vel á móti því fólki sem boðið væri hingað til landsins. Það varð nánast að reglu frekar en undantekningu að stjórnvöld byðu flóttamönnum að koma til Íslands. Á tímabilinu frá stofnun flóttamannaráðs 1995–2019 komu að meðaltali 24 á ári. Á síðasta ári komu líklega, þó að endanlegar tölur liggi ekki fyrir, 5.500. Stjórnvöld sem voru velviljuð og vildu gera vel og taka vel á móti fólki höfðu að meðaltali áratuginn á undan tekið á móti 24 á ári, á síðasta ári voru það 5.500. Enginn virðist vita hvernig eigi að leysa úr þessu eða hvar þetta muni enda, hvað þá hvernig stjórnvöld geti aftur náð tökum á málaflokknum til að nýta úrræði okkar sem best til að hjálpa þeim sem eru í mestum vanda og þessi þróun mun bara halda áfram.

Ég nefndi hér í upphafi að fjöldinn hér væri líklega hlutfallslega orðinn tífaldur á við Danmörku og Noreg og sá mesti í Evrópu og skilaboðin sem berast frá íslenskum stjórnvöldum eru bara til þess fallin að auka enn á þennan mun og merkja Ísland enn frekar sem áfangastað. Það virðist enginn hafa hugmynd um hvar það endar, hvernig eigi að standa að þessu, hvernig eigi að sjá öllum fyrir þjónustu og húsnæði o.s.frv. þrátt fyrir að á síðasta þingi, við lok síðasta þings, hafi í þriðju tilraun, í því tilviki, verið samþykkt lög um svokallaða samræmda móttöku sem setti alla í sömu stöðu. Allir ættu rétt á hinu sama hvort sem þeir kæmu á eigin vegum eða einhverra sem skipuleggja ferðir — ef þeir fengju hér hæli eða landvistarleyfi ættu þeir rétt á sömu greiðslum, sömu þjónustu, sömu aðstoð á allan hátt og þeir kvótaflóttamenn sem við bjóðum til landsins. Þetta setti stóran rauðan hring utan um Ísland sem áfangastað.

Ástæðan fyrir því að þetta er svona mikið áhyggjuefni er ekki bara sú að það reynist okkur erfitt að ráða við þennan straum. Ástæðan er líka sú að hér skortir allar tilraunir til að búa til eitthvert markmið eða takast á við fyrirsjáanlega þróun. Það er oft nefnt að 100 milljónir manna séu á flótta. Þrátt fyrir að heimurinn hafi almennt farið mjög batnandi á undanförnum árum og áratugum og sé að flestu leyti betri en nokkurn tímann áður — almennt hafa lífskjör um allan heim batnað og öryggi fólks og velmegun hefur aukist, þótt við horfum upp á hræðilegar undantekningar eins og til að mynda stríð í Úkraínu og Sýrlandi — hvers vegna eru flóttamenn þá fleiri en nokkru sinni fyrr? Það er vegna þess að ólíkt því sem sumir kannski halda þá eykst straumur hælisleitenda frá löndum með auknum lífskjörum upp að vissu marki, þeim mun betur stæð sem lönd verða og þeim mun meiri möguleikar sem gefast til að ferðast á milli landa, þeim mun meira eykst straumurinn. Það sem skiptir kannski alveg sérstöku máli í þessu er að samskiptatæknin breiðir upplýsingar út hraðar en nokkru sinni fyrr og ferðir til Evrópulanda, ekki hvað síst Íslands núna, eru auglýstar á Facebook. Þær eru auglýstar með dreifibréfum á götuhornum, t.d. í Lagos í Nígeríu. Og þegar lagt er af stað hafa flestir sem eru á ferðinni stöðugan aðgang að upplýsingum um hvert sé best að leita fanga.

Ég hef einhvern tíma sagt þá sögu áður þegar finnskur ráðherra upplýsti mig um það að Finnar hefðu verið undrandi þegar skyndilega komu milli 50.000–60.000 hælisleitendur frá tilteknu landi til Finnlands. Hvernig gat þetta gerst? Til Finnland, hugsuðu þeir. Það var vegna þess að tiltölulega smávægileg breyting á löggjöf í Finnlandi varð til þess að þeir sem skipulögðu fólksflutningana beindu straumnum, sem áður lá til Belgíu, til Finnlands. Og nú er, eins og ég segi, Ísland rækilega komið á kortið. Stundum er talað um að eina raunverulega lausnin á þessum vanda sé að bæta lífskjör í þróunarlöndunum. Við eigum að sjálfsögðu að gera hvað sem við getum til að bæta lífskjör í fátækari löndum heims, öryggi fólksins, heilbrigðisþjónustu o.s.frv., en eins og ég kom inn á áðan þá mun það ekki draga úr straumi hælisleitenda, það mun auka hann. Upplýsingar um þetta liggja fyrir, m.a. hjá Alþjóðabankanum, og hefur verið töluvert rannsakað. Bandaríski þróunarhagfræðingurinn Michael Clemens hefur til að mynda sýnt fram á þetta á mjög skýran hátt, að þegar árstekjur, kaupmáttarjafnaðar árstekjur, fara yfir 600 bandaríkjadali, svipað og kannski í Eþíópíu núna, þá byrjar straumurinn frá landinu að aukast umtalsvert. Það byrjar ekki að draga úr aukningunni fyrr en árstekjurnar ná 7.500 dollurum eða svo. Það er líklega orðið meira núna miðað við verðbólguna. En það þýðir ekki að hann hætti, það bara dregur úr aukningunni, aukningin verður ekki eins hröð. Dæmi um þetta er Albanía þar sem árstekjurnar eru á við þessi mörk þar sem aukningin minnkar en straumurinn heldur áfram.

Þegar þetta fer saman, auknar upplýsingar, auknir möguleikar á að fara á milli landa, tilraunir, oft stórhættulegra glæpamanna, til að selja fólki ferðir fyrir aleiguna eða skuld, hneppa það í ánauð, gera það skuldbundið sér þegar á áfangastað er komið, þá er ekki gott að Ísland skuli viðhalda og auka á kerfi sem ýtir undir þessar hættuferðir, ýtir undir starfsemi glæpamanna, gerir landið að söluvöru glæpagengja. Og hversu lengi mun þetta halda áfram án þess að við tökum á málum og stjórnvöld leitist við að búa til reglur sem eru til þess fallnar að nýta möguleika okkar sem best til að hjálpa þeim sem eru í mestri neyð? Hversu lengi ætlum við Íslendingar og önnur Evrópulönd að halda áfram að vanrækja flóttamannabúðir í Líbanon þar sem á aðra milljón manna er í flóttamannabúðum? Þar er fólk í alls konar flóttamannabúðum, sumum ágætum og öðrum hræðilegum, í gjaldþrota landi sem biðlar til Evrópulandanna um hjálp og bendir á að þeir gætu jafnvel hjálpað hundraðfalt fleirum, ef þeir fengju bara aðstoð við það, en nemur því sem hægt er að gera fyrir fólk í Evrópulöndunum. En líklega finnst bara allt of mörgum stjórnmálamönnum miklu betra og mikilvægara að sýna í heimalandinu hvað þeir eru að gera, hvað þeir eru góðir, með því að fá fólkið þangað. Kannski skortir hvata til að styðja við þau lönd sem eru að berjast við að hjálpa sem flestum og gera sem mest gagn. Og hvar endar þetta? Þetta endar hvergi því að ekki aðeins aukast lífsgæði í heiminum heldur fjölgar íbúum þróunarlandanna sérstaklega ákaflega hratt og mun gera áfram. Þeim mun meira sem hagur fátækustu landanna vænkast, þeim mun fleiri munu auk þess yfirgefa þau.

Við skulum taka dæmi af Nígeríu í Afríku. Það er fjölmennt land, komið yfir 200 milljónir manna. Hagkerfið vex hratt en þjóðin ekki síður hratt. Árið 2045, eftir rúm 20 ár, verða Nígeríumenn orðnir fjölmennari en Bandaríkjamenn. Landsmenn verða orðnir um 450 milljónir árið 2050 samkvæmt Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna og öðrum stofnunum sem spá fyrir um fólksfjölda. Árið 2008 var reyndar gert ráð fyrir að Nígeríumenn yrði 290 milljónir árið 2050, nú eru það 450 milljónir. Það er í raun sama til hvaða lands í Afríku er litið. Helmingur Úgandabúa er t.d. yngri en 15 ára og landsmenn eru orðnir 40 milljónir en þeir verða komnir yfir 100 milljónir eftir 30 ár. Við lok aldarinnar verða 14 af 25 fjölmennustu ríkjum í heimi í Afríku og ekkert Evrópuland kemst þá á lista yfir fjölmennustu ríkin. Flestir núlifandi Íslendingar munu upplifa það að ein borg í Nígeríu, Lagos, verði fjölmennari en Þýskaland allt, þetta er árið 2060. Telur þá einhver að hægt sé að leysa úr vanda þróunarlandanna með því að hafa opin landamæri, að lakari lífskjör eða lakara öryggi en hér kalli á opnun landamæranna? Og enn og aftur ítreka ég það að slík stefna ýtir ekki aðeins undir að fólk sé sett í hættu heldur gerir okkur líka erfiðara fyrir að hjálpa þeim sem eru mest hjálparþurfi. Til að undirstrika þetta með þróunina og að aukin velmegun muni enn ýta undir þennan straum má nefna land af hinum kantinum, ef svo má segja. Það er landið Níger, nágrannar Nígeríu í norðri. Það land er miðstöð fólksflutninga í Afríku á leiðinni að Miðjarðarhafinu og svo til Evrópu. En það fara ekkert margir íbúar Níger sem hælisleitendur til Evrópu. Af hverju er það? Þeir hafa ekki efni á því. Þótt miðstöð þessara fólksflutninga sé í landinu þeirra þá komast þeir ekki sjálfir.

Verðum við ekki að huga að forgangsröðun þegar þessi er orðin raunin, huga að því að gera sem mest gagn fyrir þá sem eru í mestri neyð? Ella heldur stjórnleysið áfram og umfang viðfangsefnisins heldur áfram að aukast. Til að ýta undir eða undirstrika þetta samhengi ætla ég nefna borg sem fáir kannast líklega við. Hún heitir Blantyre og er í Malaví. Einhverjir þingmenn hafa þó hugsanlega komið til Malaví sem hefur verið í þróunarsamvinnu við Ísland. Við næstu aldamót, innan mannsaldurs, verða íbúar borgarinnar líklega orðnir 57 milljónir, sem er auðvitað margfalt fleira en í nokkurri evrópskri borg. Þó er Blantyre ekki stærsta borgin í Malaví. Höfuðborgin Lilongve verður orðin enn þá stærri. En þegar þar að kemur og við lítum til baka, eða þeir sem þá verða við stjórnvölinn, munu menn geta sagt að Íslendingar hafi gert sitt besta til að ná sem mestum árangri fyrir fátækt fólk og fólk í hættu? Eða, eins og maður óttast miðað við óbreytta stefnu, munu menn klóra sér í höfðinu yfir því hvernig hægt var að vera svona kærulaus, hvernig hægt var að forðast það algerlega að líta á heildarmyndina, velta því ekki einu sinni fyrir sér hver þróunin yrði eða hvernig lausnir myndu gera sem mest gagn?

Þetta litla útlendingamál, lagt fram í fimmta sinn útþynnt, gerir í raun ekkert til að takast á við þetta stóra viðfangsefni. Eins og ég nefndi hér í upphafi er ég jafnvel farinn að hafa áhyggjur af því að það sé fyrst og fremst til þess fallið að auka enn á flækjurnar og gera okkur erfiðara að takast á við þetta. Engin merki birtast um að von sé á einhverju til viðbótar, heildarendurskoðun útlendingalaga eins og sannarlega er þörf fyrir. Það er áfram spólað í sama farinu með þetta mál án nokkurrar framtíðarsýnar og meira að segja án nokkurrar tilraunar til að ræða eðli og umfang þessa gríðarlega stóra vanda þar sem við Íslendingar ættum að geta gert svo miklu betur.