Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að viðurkenna að mér finnst ávallt gaman að hlusta á hv. þingmann halda ræðu og tala um þennan málaflokk. Ég skal líka viðurkenna að það hefði verið gaman að heyra þessi sjónarmið í umræðum í nefndinni en ég átta mig á því að það er erfitt að vera tveggja manna þingflokkur á Alþingi og sinna öllu því nefndarstarfi sem undir það fellur. Ég var ánægð að sjá það, í nefndaráliti frá fulltrúa Miðflokksins, að lagt er til að frumvarpið verði samþykkt en hv. þingmaður fór annars almennt mjög neikvæðum orðum um frumvarpið sem slíkt. Ég ætla að leyfa mér að segja að það lýsi ekki síst þeirri pólaríseringu sem myndast hefur í kringum þessi mál.

Ég ætla að leyfa mér að vera algerlega ósammála hv. þingmanni þegar hann telur að stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum útlendinga sé eingöngu einhvers konar umbúðir. Þar eru raunhæfar og skýrar lausnir sem byggja á mannúð, réttlæti, ábyrgð og raunsæi og þær ganga út á að slá skjaldborg utan um verndarkerfið og félagslega innviði á landinu á sama tíma og við viljum bjóða fólk velkomið að koma hingað til lands til að lifa og njóta. Ég held því að hér sé um mjög raunhæf markmið að ræða.

Eins og það getur verið gaman að hlusta á hv. þingmann þá er þessi ræða um umbúðirnar eiginlega bara orðin umbúðirnar einar. Það sem heyrist frá hv. þingmanni og flokki hans er einmitt svolítið mikil umbúðastjórnmál, að setja flókinn málaflokk upp í mjög einfalda mynd þegar ég hygg að hv. þingmaður þekki málið býsna vel, þekki þá umræðu sem átt hefur sér stað hér á þinginu og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir og áskoranir í málaflokknum.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann ekki sammála því að það sé mikilvægt að afgreiða það frumvarp sem hér liggur undir á sama tíma og nauðsynlegt sé að hefja víðtækari umræðu um málefni innflytjenda og ákveðnu innflytjendastefnu fyrir Ísland?