Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir umræðuna sem á sér stað hér á meðal okkar í andsvörum. Ég hvet hv. þingmann til að fara vel yfir stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum málaflokki því að hún er bæði raunsæ og það er svo sannarlega innihald í því og ekki síst hvað það varðar að við viljum bjóða fólk hingað velkomið. Við viljum opna fyrir atvinnuleyfi og dvalarleyfi fyrir fólk sem vill koma hingað og taka þátt í íslensku samfélagi vegna þess að við trúum því að það sé mikilvægt að fá hingað til landsins fólk sem vill búa hér og starfa með okkur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Var hann í upphafi ræðu sinnar eitthvað að vísa í það að honum finnst, eins og fram hefur komið, frumvarpið vera orðið ansi lítið en telur að verið sé að draga enn frekar úr því með nefndaráliti og breytingartillögu meiri hluta? Skildi ég það rétt? Og er þá hv. þingmaður að vísa í það bráðabirgðaákvæði sem nefndin er að setja inn og snýr sérstaklega að börnum sem eru í þeirri stöðu að hafa verið hér á landinu og forráðamenn þeirra ekki (Forseti hringir.) fengið vernd — bráðabirgðaákvæðið er þá gert til að koma í veg fyrir (Forseti hringir.) þær miklu tafir sem hafa orðið á brottflutningi þessa (Forseti hringir.) fólks vegna Covid? Er það það sem hv. þingmaður er að vísa í?