Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður, formaður allsherjar- og menntamálanefndar, kemur hér inn á atriði sem ég hafði ekki tíma til að nefna í ræðu minni en fæ kannski að fjalla um í næstu ræðu, sem eru þau viðbrögð sem maður sér oft hjá hægri mönnum, og núna líka hjá Samfylkingunni, um að það þurfi bara að nýta þá sem koma til landsins sem ódýrt vinnuafl, (BHar: Það sagði ég ekki.) — það er ekki orðað þannig, auðvitað ekki, en það fylgir sögunni að það þurfi fólk til að vinna ýmis erfið störf sem Íslendingar fáist ekki til að vinna. Ég mun fara nánar yfir þetta í seinni ræðu.

En ég ætla að reyna að svara athugasemdum hv. þingmanns: Já, ég hafði orð á því að mér hefði þótt, í nefndaráliti meiri hlutans, heldur dregið úr vægi frumvarpsins til viðbótar við það sem fyrir var. Hvað börn varðar þá vísaði ég í reynslu og lærdóm þeirra sem vinna að þessum málum við Miðjarðarhaf og víðar og eindregna hvatningu þeirra til þess að búa ekki til sérreglur um börn sem gætu orðið til þess að börn yrðu send af stað sem undanfarar í hættuför.