Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:55]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hann út í ákvæði í frumvarpinu sem við ræðum hér. Við gætum sjálfsagt eytt löngum tíma í að ræða útlendingamál í prinsippinu þar sem við erum kannski ekki sérstaklega sammála. En mig langar til að ræða það mál sem liggur fyrir fundinum. Mig langar að byrja á því að spyrja hv. þingmann út í afstöðu hans gagnvart 6. gr. frumvarpsins sem varðar sviptingu þjónustu að 30 dögum liðnum.

Nú hefur það verið nokkuð óskýrt — nú veit ég að þingmaðurinn sat ekki í allsherjar- og menntamálanefnd undir umræðum um afleiðingar þess að fólk missi þessa þjónustu í kjölfar synjunar, en það var mjög óskýrt hvað tekur við. Það var óskýrt í máli ráðuneytanna sem komu og sveitarfélaganna, það virðist enginn geta alveg sagt fyrir um það með vissu hvað tekur við. En það má segja að meiri hlutinn hér á þingi, sem ber ábyrgð á þessu frumvarpi, skiptist á að segja að fólk eigi bara að fara heim til sín og að það missi ekki þjónustu eftir 30 daga, að það fari bara yfir í annað kerfi. Þetta er oft svarið þegar gagnrýnt er að verið sé að henda fólki á götuna. Þetta er mjög óljóst, ég endurtek það, bæði hvað varðar rétt fólks til þess að fá einhvers konar skjól yfir höfuðið, hvort það eigi rétt að neyðarskýlum og annað, hvort það eigi rétt á aðstoð sem svokallaður útlendingur í neyð. Ég fæ ekki betur séð en að útlendingur í neyð, samkvæmt reglugerðum, eigi rétt á meiri þjónustu en er fólgin í þeirri þjónustu sem veitt er hælisleitendum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, í ljósi þess og í ljósi allra þeirra undantekninga sem eru í ákvæðinu á því hverjir verða sviptir þjónustu í kjölfar 30 daganna, hvort hann telji að þetta lagaákvæði, verði það að lögum, muni raunverulega leiða til þess að einhverjir fleiri einstaklingar fari héðan að lokinni synjun?