Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta allsh.- og menntmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf áhugavert að ræða þennan málaflokk við hv. þingmann sem er vel að sér í honum þó að við séum ekki alltaf sammála um hvaða ályktanir eigi að draga. Hvað varðar afstöðu mína til 6. gr., um að svipta fólk þjónustu að 30 dögum liðnum, eftir að búið er að hafna umsókn endanlega, búið að fara í gegnum heilmikið ferli, allt of mikið ferli og langdregið, þá finnst mér eðlilegt að fólk geti ekki áfram notið sömu þjónustu verandi hér ólöglega, geti ekki notið sömu þjónustu ríkisins, skattgreiðenda, áfram. Það mætti velta því fyrir sér hvort það ættu að vera 30 dagar eða ekki en a.m.k. væri of langt gengið að hafa lengri tíma en það. En hv. þingmaður varpaði upp þeirri spurningu hvort meiri hlutinn viti í raun hver áhrifin af þessu verði. Nú get ég auðvitað bara getið mér til, ég hugsa að flestir þeirra viti það ekki, og annaðhvort viti þeir það ekki eða að menn séu viljandi að tala hver í sína áttina, kannski eftir ólíkum flokkum, eins og hv. þingmaður kom aðeins inn á. Hér var nefnt hugtakið útlendingur í neyð og hvaða áhrif það hefði þá í samanburði við þetta með 30 dagana. Nú verð ég bara að viðurkenna að hv. þingmaður er betur að sér hvað þetta atriði varðar, hugtakið útlendingur í neyð, ég veit ekki hvaða áhrif samspilið þarna á milli yrði. En vonandi getur hv. þingmaður útskýrt nánar fyrir okkur hvað felst í þessu með útlending í neyð.