Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:02]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Eftir að hafa hlustað á orðræðu hv. þingmanns, sem vægast sagt er uppfull af alls konar vitleysum, langar mig að fara í gegnum nokkur atriði þar sem hv. þingmaður sagði einfaldlega ekki alla söguna. Hann byrjaði á því að tala um að við værum að taka á móti mestum fjölda flóttamanna miðað við höfðatölu. Já, við erum líka með allt of marga þingmenn miðað við höfðatölu og margt annað ef miðað er við höfðatölu. Höfðatala á ekki við þegar kemur að Íslandi. Hv. þingmaður talaði um að fólk væri söluvara glæpagengja. Tölfræðin sýnir að það er einungis lítill hópur. Já, það kom hingað fullt af fólki á síðasta ári. Af hverju? Úkraína — við buðum Úkraínubúum hingað en hv. þingmaður nefndi það aldrei á nafn. Það hefur líka verið upplausn í Afganistan og það er enn stríð í Sýrlandi. Fólk kom þaðan. Já, og frá Venesúela. Það að Venesúelabúar fái hér hæli er ekki bara ákveðið af einhverri nefnd úti í bæ. Sú ákvörðun að þar ríki ástand sem er ekki bara efnahagslegt kemur frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Frá Venesúela hafa 7,1 milljón flóttamanna farið og þar af 6 milljónir til Suður-Ameríkulanda. Það fólk er ekkert endilega að fara í betra efnahagslegt ástand þar. Hv. þingmanni varð tíðrætt um Nígeríu. 57 af 60 umsóknum frá Nígeríu var hafnað í fyrra. Það sýnir nú hversu auðvelt er fyrir Nígeríubúa að koma hingað. Hv. þingmaður talaði einnig um lífskjör í þróunarlöndunum og gleymdi að nefna að fólksfjölgun fer niður á við í öllum löndum, það hefur verið sýnt fram á það, vegna þess að tíðni fæðinga fer niður á við þegar lífskjör batna.

Mig langar (Forseti hringir.) að spyrja hv. þingmann því að hann vill hjálpa fólkinu sem þar býr: Styður (Forseti hringir.) hv. þingmaður það að við hækkum framlög til þróunarsamvinnu (Forseti hringir.) eða á bara að draga það allt niður þannig að fólk búi við slæm lífskjör þar?