Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:10]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég er mjög andsnúinn þessu máli sem við ræðum hér í dag og hef svo sem áður flutt ræður um það í þinginu. Það hefur ekkert við meðferð málsins innan allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem ég sit, hvikað þeirri afstöðu minni eða hnikað henni til. Þvert á móti þá herðist maður í andstöðu sinni eftir því sem maður hlustar á fleiri koma fyrir nefndina að lýsa sjónarmiðum sínum. Ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og tek þar af leiðandi undir nefndarálit annars þingmanns, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, sem flutti hér ræðu í gær. Mig langar kannski aðeins í upphafi að gera það að umtalsefni að auðvitað er ákveðið verklag viðhaft hér á Alþingi. Partur af því er að kalla umsagnir og umsagnaraðila inn til nefndanna og oft eru skoðanir skiptar um einstaka hluti eða ákveðin mál í málsmeðferðinni í nefndunum. En það vill nú svo til í þessu máli að nánast hver einasti umsagnaraðili, hver einasta umsögn, hver einasti maður sem komið hefur fyrir nefndina, var mjög gagnrýninn á veigamestu atriði þessa frumvarps. Það eitt ætti að hringja nokkuð öflugum viðvörunarbjöllum hjá okkur öllum. En ég verð að játa að mér finnst það talsvert undrunarefni að þingmenn stjórnarmeirihlutans geti hlustað á þetta allt saman og í engu breytt í afstöðu sinni til málsins, það finnst mér ekki traustvekjandi. Ég tek undir það sem komið hefur fram í umræðunni um þetta mál núna að þetta er illa unnið. Það er ekki búið að hugsa hverjar afleiðingarnar eru, þetta er að búa til aukaflækjustig. Þetta mun ekki auka við skilvirkni, eins og ætlunin er, og svo sannarlega eru réttindi fólks ekki treyst eða tryggð með þeim útfærslum sem undir eru í málinu.

Þetta er auðvitað að koma fram enn eina ferðina eins og við þekkjum. Hingað til hefur það verið þannig að samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins, og kannski einkum og sér í lagi VG, hafa fundið einhverja ástæðu til að leggja stein í götu málsins að einhverju leyti sem síðan hefur tafið það og annað í þeim dúr. En nú eru stjórnarflokkarnir búnir að þétta raðirnar og því erum við hér væntanlega að fara að klára umfjöllun um þetta mál í þingsal og jafnvel greiða atkvæði um það eftir ekki mjög langan tíma. Þá allt í einu, í fréttum í dag, stígur hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fram og boðar að mögulega verði einhverjar frekari breytingar á málinu. Það þykir mér nú koma svolítið seint fram þótt ekki hafi verið farið ofan í það í þessu fréttaviðtali hvers konar breytingar það yrðu eða á hverju. Hæstv. forsætisráðherra var spurður, í framhaldi af þeirri staðreynd að ungliðar VG leggjast mjög gegn þessu frumvarpi, og þar af leiðandi finnst mér það skjóta svolítið skökku við að verið sé að boða einhverjar miklar breytingar af sjálfum forsætisráðherra þegar málið er svona langt komið hér í þinginu. En gott og vel. Vonandi yrðu það þá bara breytingar sem myndu laga málið frá því sem nú er.

Það náðist ágæt sátt um þessi mál árið 2016 þegar flestir flokkar á þingi fóru af stað í vinnu til að reyna að auka sátt um málaflokkinn. Ég og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir erum einmitt að tala fyrir því í þessu nefndaráliti sem ég tek undir að nær væri að fara í slíka vinnu á nýjan leik frekar en að auka á pólaríseringuna sem tengist oft þessum málum og mun svo sannarlega ekki linna þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum, ef þannig fer. Auðvitað er það þannig að það er búið að spila upp alls konar umræðu um að hér ríki algjört neyðarástand, að við verðum að grípa inn í því að hér flæði fólk óheft inn. Staðan er auðvitað þannig, eins og margoft er búið að benda á, að 80% allra þeirra sem hingað koma, í gegnum það kerfi sem hér er undir, koma frá tveimur löndum og það er ákvörðun íslenskra stjórnvalda, þetta eru Úkraína og Venesúela eins og mikið hefur verið rætt um. Þetta viðbragð — það er ekki hægt að hengja þetta frumvarp, þessa vinnu sem við erum í hér, á þann hóp. Þá eru eftir 20% og það liggur alveg fyrir að einhverjar breytingar á löggjöfinni munu ekki gerbreyta því álagi sem er á innviðina. Þess utan getum við ekki notað það sem einhvers konar skálkaskjól, þegar við erum að ræða um mál sem snúa m.a. að alþjóðlegum skuldbindingum okkar, sem snúa að almennum mannréttindum fólks, að innviðir hér séu svo lélegir að við getum ekki tekið á móti fólkinu. Þetta er auðvitað ekki einhvers konar kvótakerfi og þess utan eru það léleg rök hjá ríkisstjórn að búa þannig um hnútana að innviðir í samfélaginu séu ekki nægilega góðir til að taka á móti fólki. Lögum þá frekar innviðina og búum fólki sem hingað vill leita almennileg mannréttindi. Auðvitað er það þannig að hingað til Íslands kemur líka fullt af fólki, útlendingar, sem kemur ekki inn í gegnum þetta kerfi. Hingað geta komið u.þ.b. 500 milljónir á hverjum degi ef þannig verkast vill og við erum yfirleitt ekki að ræða mikið um það enda gerum við okkur grein fyrir því að þetta fólk er að leggja mikið til samfélagsins hér. Þótt það sé að sjálfsögðu ekki undir í margs konar þjónustu sem á við um verndarkerfið þá er það engu að síður þannig að þeir sem koma hingað í gegnum verndarkerfið vilja sinna hér vinnu, taka þátt í samfélaginu, vera skattgreiðendur og leggja sitt af mörkum.

En þá aðeins efnislega að nokkrum atriðum. Það hefur náttúrlega komið mjög skilmerkilega fram að það leikur verulegur vafi á því hvort frumvarpið og ýmis ákvæði þess standist stjórnarskrá, hvort mannréttindi fólks séu einfaldlega tryggð. Ekki var gerð nein úttekt á þessu. Við höfum verið að tala fyrir því að slíkt yrði gert en mönnum finnst ekki mikið tilefni til þess einhverra hluta vegna þrátt fyrir að Mannréttindastofnun Háskóla Íslands hafi komið með ábendingar í þá veru sem full ástæða er til að taka alvarlega. Það hefur líka verið nefnt mjög mikið þetta sem snýr að því að þjónusta falli niður eftir 30 daga, auðvitað með ákveðnum undantekningum. Þá er verið að tala um börn og þungaðar konur og einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu og þá sem eru samstarfsfúsir. En það er algerlega kórrétt, sem bæði hefur komið fram hjá ýmsum umsagnaraðilum og við umræðurnar hér í þingsal, að það er ótrúlega óljóst hvað tekur við. Menn hafa ekki verið sammála um að það hafi verið erfitt að skilgreina það. Það er veruleg hætta á því að ákveðnir hópar falli þarna einhvern veginn á milli skips og bryggju, sömuleiðis þegar við erum að tala um hvað það er að vera samstarfsfús. Það er auðvitað þannig að Útlendingastofnun og fleiri aðilar sem um véla hafa kannski lagt ýmsan skilning í það sem er á skjön við það sem fólkið sem kemur í gegnum kerfið er að reyna að benda á, að það getur ekki orðið sér úti um skilríki, kemur til landsins með ýmsum leiðum og þar fram eftir götunum. Í nefndaráliti, sem hv. þm. Helga Vala Helgadóttir talaði fyrir í gær, segir, með leyfi forseta:

„Með því að nota þjónustusviptingu til að þrýsta á umsækjendur að yfirgefa landið er heimilisleysi, sár fátækt og skortur á heilbrigðisþjónustu notaður sem tæki til að takmarka straum flóttafólks til landsins og neyða fólk til að fara. Eru það beinlínis rök stjórnvalda fyrir þjónustusviptingunni.“

Síðan má auðvitað nefna það sem umsagnaraðilar sögðu um þetta, ASÍ, Samband íslenskra sveitarfélaga. Hvað verður um þetta fólk? Er það tryggt hvað tekur við? Þetta voru hlutir sem nefndir voru. Í umsögn sinni segir Rauði krossinn, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir nefndar undantekningar á meginreglunni um niðurfellingu þjónustu telur Rauði krossinn í ljósi framangreinds að leiða megi líkur að því að breytingin muni samt sem áður koma harðast niður á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu (s.s. fötluðu fólki, fórnarlömbum mansals, pyndinga og annars alvarlegs ofbeldis), enda hefur Útlendingastofnun túlkað skilgreininguna á einstaklingum í sérstaklega viðkvæmri stöðu verulega þröngt. Að sama skapi eru möguleikar þeirra til að yfirgefa landið innan 30 daga frá birtingu endanlegrar ákvörðunar mun minni en umsækjenda í sterkari stöðu.“

Hægt væri að hafa þessa tilvitnun lengri. Landlæknir og Læknafélagið benda á að það sé óásættanlegt og ætti ekki að líðast í velferðarsamfélagi að svipta fólk réttinum til heilbrigðisþjónustu, ef það þarf skyndilega á henni að halda. Ef það er bara einhver neyðarréttur sem þar á að gilda getur það orðið til þess að fólk neitar sér um þjónustu sem það þarf svo sannarlega á að halda þótt hún sé ekki lífsbjargandi. Það má nefna fleiri atriði í þessu. Talsvert hefur verið talað um það sem snýr að fyrsta griðlandi og öruggu þriðja ríki. Mig langar þá aðeins að fara yfir það sem nefnt er í nefndarálitinu hvað það varðar. Reglan lýtur að því að mögulegt verði að synja umsækjanda um efnismeðferð hafi hann slík tengsl við þriðja ríki að „sanngjarnt og eðlilegt“ geti talist að hann dvelji þar, og „sanngjarnt og eðlilegt“ er þá tilvitnun í breytinguna.

„Athygli er vakin á því að hér er ekki átt við ríki sem eru aðilar að Dyflinnarreglugerðinni heldur ríki sem falla utan hennar. Ekki er gert ráð fyrir því að Ísland hafi gert sérstaka viðtökusamninga við þriðja ríki um móttöku á umsækjendum um alþjóðlega vernd og ekki er gert að skilyrði að umsækjandi hafi dvalið í ríkinu eða hafi þar heimild til dvalar. […] Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerði verulegar athugasemdir við umrætt ákvæði og telur 1. minni hluti ljóst að verði ákvæðið að lögum muni það leiða til aukins vanda í kerfinu með tilheyrandi kostnaði. Það hlýtur að vera grundvallarforsenda þess að synja einstaklingi um efnislega meðferð og senda hann til þriðja ríkis að viðkomandi hafi heimild til dvalar í ríkinu og að stjórnvöld í viðtökuríki hafi samþykkt að taka á móti umsækjanda, enda kom það fram á fundi nefndar með fulltrúum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna að slíkt væri eitt skilyrða fyrir því að beita ákvæðinu.“

Það er sem sagt verið að setja inn einhvers konar ákvæði um það að við getum sent fólk til annarra landa án þess að það séu neinir beinir samningar þar um eða þá að viðtökuríkið taki yfir höfuð á móti fólkinu. Við getum auðvitað snúið þessu við og sett okkur Íslendinga í þá stöðu. Ég held að það myndi nú heyrast eitthvað í fólki ef það yrði regla annars staðar, bara svo eitt dæmi sé nefnt um það.

Síðan má líka nefna það sem umsagnaraðilar fyrir nefndinni sögðu um stöðu kvenna á flótta í umsögnum. Kvenréttindafélagið benti á að frumvarpið standist ekki einu sinni þær kröfur sem ríkisstjórnin gerir til sín í stjórnarsáttmálanum um jafnréttismat og það er örugglega ekkert sérstaklega þægilegt fyrir þingmenn VG að lesa það og heyra. Einnig er bent á þar að ekki sé tekið tillit til kvenna og sérstakra aðstæðna þeirra, svo að eitthvað sé upp talið.

Einnig má nefna, sem mér fannst sérstaklega sláandi að hlusta á, það sem kom fram fyrir nefndinni frá UNICEF og Barnaheillum og Þroskahjálp. Ég ætla að fara aðeins yfir það á hundavaði. Ekkert samráð var haft við hagsmunahópa nema í gegnum samráðsgáttina. Það var talað um að það vanti sérfræðiþekkingu á þessum málaflokki inni í kerfinu sem bitni síðan á lagasetningu. Ekki er gerð grein fyrir afleiðingum frumvarpsins á börn út frá barnasáttmálanum, það er ekki farið yfir það. Það er verið að árétta að ef það er ekki barni fyrir bestu að vera vísað til baka þá eigi það sama að gilda um foreldra. Þetta á að vera algild regla sem ekki er, reynsla bæði af fötluðum og börnum er þvert á þetta. Þetta er ekki breyta sem skiptir máli í málsmeðferðinni, það kom mjög skýrt fram fyrir nefndinni. Það kom líka fram að við séum á engan hátt að sinna skyldum okkar gagnvart börnum og fötluðum, matið á þessu öllu er mjög grunnt. Þegar við erum að senda börn og fatlað fólk til annarra landa þá er oft enginn sem ber ábyrgð á móttökunni þar sem hugar að þeim bjargráðum sem þurfa að vera á hinum endanum. Við erum ekki að virða alþjóðasamninga að þessu leyti. Það kom fram að einstaklingsbundið mat á hagsmunum fatlaðra barna er í skötulíki og svo mætti lengi telja. Þá var það t.d. nefnt að þegar talsmannaþjónustan var hjá Rauða krossinum var flaggað ef einhver fatlaður kom eða reynt að gera grein fyrir því en það breyttist eftir að talsmannaþjónustan fór af. Þetta er bara dæmi um það hvernig kerfið okkar er í þessum málum og var auðvitað mjög sláandi að heyra.

Mig langar líka að nefna það sem kemur mjög skýrt fram í nefndaráliti hv. þm. Arndísar Önnu Kristínardóttir Gunnarsdóttur, varðandi þetta með 12 mánaða regluna, þar sem var verið að nefna það hér í ræðu í gær að í raun og veru væri verið að lögfesta það sem Útlendingastofnun hefur verið gerð afturreka með hjá kærunefndinni og dómstólum, sem segir auðvitað margt um það hversu langt menn eru til í að ganga í þessu öllu. Um það sem snýr að henni þá er verið að bæta inn þar hvernig menn geta í raun og veru verðið gerðir ábyrgir fyrir töfum á málinu. Í frumvarpinu segir:

„Þá skal einnig taka umsókn til efnismeðferðar hafi umsækjandi ekki fengið endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 12 mánaða frá því að umsókn var lögð fram, enda hafi umsækjandi sjálfur, maki eða sambúðarmaki hans eða annar sem kemur fram gagnvart stjórnvöldum fyrir hans eða þeirra hönd ekki átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka.“

Ég hvet þingheim til að lesa þetta nefndarálit þar sem hv. þingmaður fer mjög skilmerkilega yfir þetta. Þar má líka nefna það sem kemur fram hjá UNICEF og Barnaheillum um þetta, að það sé mikilvægt að það sé skýrt í lögum að tafir á meðferð mála sem megi rekja til aðstandenda barns skuli aldrei túlka barni í óhag við málsmeðferð umsóknar þess. Það á ekki að koma niður á rétti barns sé aðstandandi þess valdur að töfum, hvað þá heldur þegar lengra er gengið eins og gert er í breytingunni. Þetta er eiginlega orðið þannig að menn komast varla út í búð öðruvísi en að vera sakaðir um að vera að tefja málið.

Auðvitað má nefna mjög margt annað í þessu en heildarniðurstaðan er sú að það er ekki nokkur einasta ástæða til þess að ætla að hlutir horfi til einhverra framfara við samþykkt þessa frumvarps, það er bara engan veginn þannig. Reyndar er það svolítið þannig, svo að ég tali nú almennt um þennan málaflokk, að hluti þessa kostnaðar — af því að það er oft verið að tala um kostnað í þessu kerfi okkar — fellur til einmitt vegna þess að kerfið er með þetta skilyrta viðbragð, virðist vera, að reyna að halda fólki úti í kuldanum frekar en að horfa til aðstæðna þess og reyna þá að byggja upp skilvirkt kerfi hér innan lands til að bjóða fólk velkomið og koma því almennilega út í samfélagið þar sem það vill svo sannarlega gera gagn. Það er eiginlega þetta sem við þurfum að breyta í hugsuninni í þessu. Þegar maður nefnir þetta þá er sagt: Hvað, vilja menn bara opna landamærin? Nei, að sjálfsögðu eru menn ekkert að tala um að opna landamærin. Þetta er allt ágætlega skilgreint í núgildandi lögum. Það sem við höfum hins vegar oft verið að vandræðast með hér í opinberri umræðu er framkvæmdin á lögunum. Það sáum við t.d. þegar stórum hópi fólks var, nú skömmu fyrir jól, vísað til baka. Þar var fatlaður einstaklingur í hjólastól eins og við þekkjum, þar voru tvær ungar stelpur sem voru í námi, önnur með þann draum að gerast læknir og hin tannlæknir, ef ég man þetta rétt. Ég fæ ég ekki skilið, þegar við horfum á þá framkvæmd, hvernig við sem þjóð getum litið svo á að við séum betur stödd sem samfélag með þessa tilteknu framkvæmd en ef við leyfðum þessu fólki að vera og aðstoðuðum það við að koma undir sig fótunum hér. Á Grikklandi bíður þessa fólks ekki neitt annað en að vera á götunni, svo ekki sé talað um ef það fer síðan alla leið aftur til heimalandsins. Þetta eru svona nokkur af þeim atriðum sem ég myndi vilja nefna.

Mig langar líka í lokin að árétta það, sem ég hef áður talað um, að það eru ekki bara við Íslendingar sem erum að eiga við þessi mál á hverjum degi. Þetta er auðvitað í gangi um alla Evrópu. Það er löngu orðið tímabært að ríki álfunnar hugsi þessi mál svolítið upp á nýtt vegna þess að þessi vandi er ekkert að fara að minnka, hann er að aukast eftir því sem árin líða. Við komumst ekkert áfram ef viðbragð okkar er alltaf að reisa stærri girðingar og hærri múra. Það held ég að geti varla verið farsælt til lengdar. En síðan er það auðvitað líka þannig, svo við nefnum það nú aftur, að hér í umræðunni verður oft ótrúlegur hávaði þegar við erum að tala um fólk sem er að koma hingað í gegnum verndarkerfið þótt það séu tiltölulega fáir útlendingar á hverju ári miðað við þann fjölda sem kemur frá öðrum löndum og á rétt á að koma hingað á grundvelli fjórfrelsisins. Þetta er auðvitað umhugsunarefni vegna þess að það er ekkert sem segir okkur að flóttafólk eða hælisleitendur hafi einhver önnur áform eða aðra drauma en að vera virkir þátttakendur í samfélagi, rétt eins og þeir sem koma hingað, hvort sem það er tímabundið eða til lengri dvalar, til að vinna. Við erum svolítið föst í því að vera alltaf að hugsa um þennan málaflokk út frá því hvað stendur á fjárlögum hvers árs í staðinn fyrir að reyna að vega og meta verðmætin sem verða til með framlagi þessa fólks til lengri tíma. Þá á ég bæði við framlag þess í atvinnusköpun og í atvinnuþátttöku. Ef menn vilja hugsa um þetta fólk sem skattgreiðendur, framtíðarskattgreiðendur, þá geta menn gert það því að það er þannig að við Íslendingar þurfum ótrúlegan fjölda að utan til þess að standa undir framtíðarvelferð samfélagsins. Við gerum okkur grein fyrir því en við gerum okkur ekki nægilega grein fyrir því að hluti af því fólki getur auðvitað komið í gegnum hælisleitendakerfið þótt það sé ekki markmiðið með kerfinu. Að lokum langar mig að nefna hér, svona í blárestina, af því að vitnað var í landsfundarályktun Sjálfstæðisflokksins, af hv. formanni allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem kemur fram að það eigi að slá skjaldborg um verndarkerfið, verndarkerfi sem markvisst er svolítið að reyna að halda fólki úti. Ég segi: Sláum frekar skjaldborg utan um fólkið sem þarf á verndarkerfinu að halda. Það væri miklu skynsamlegri nálgun.