Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil koma aðeins inn á það sem hann nefndi varðandi það að frumvarpið brjóti stjórnarskrá. Ég held að hv. þingmaður hafi aðeins misskilið þetta. Mannréttindastofnun Háskóla Íslands beinir spjótum að breyttu mati á endursendingum, sérákvæðum um börn og rétti útlendinga til aðgangs að dómstólum. Frumvarpið mælir hins vegar ekki fyrir um þessi atriði. Það er meginþunginn í athugasemdum Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands að niðurfelling réttinda skv. 6. gr. frumvarpsins brjóti gegn stjórnarskrá. Því er til að svara að það getur ekki talist til mannréttinda, og ég hef sagt það áður í þessari umræðu, að vera í fríu fæði og á uppihaldi ríkisins þegar einstaklingur neitar að fara úr landi, hann er hér ólöglega, hann er í trássi við lögmæta ákvörðun stjórnvalda.

Kannski telur hv. þingmaður það vera mannréttindabrot að geta ekki verið í landinu ólöglega og þiggja samt sem áður greiðslur frá ríkissjóði, uppihald og húsnæði sem er metið á u.þ.b. 300.000 kr. á mánuði. Það væri ágætt að hv. þingmaður svaraði því hér og nú hvort hann telji það vera mannréttindabrot. Sambærileg ákvæði má finna í flestum Evrópuríkjum. Bent er á að ákvæði frumvarpsins, um sjálfkrafa kæru til kærunefndar og styttri greinargerðarfrest, brjóti mögulega gegn réttinum til réttlátrar málsmeðferðar en sú athugasemd stenst ekki skoðun.

Það væri gott að fá það fram hjá hv. þingmanni hvort hann telji sem svo að einstaklingur sem hefur fengið niðurstöðu í sínu máli hér, er kominn á endastöð í sínu máli og ber að fara úr landi — að það sé mannréttindabrot að hann fái (Forseti hringir.) ekki þjónustu ríkisins, húsnæði og uppihald, þegar 30 daga fresturinn er liðinn.