Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna og vil jafnframt nota tækifærið og þakka hv. þingmanni fyrir gott samstarf í hv. allsherjar- og menntamálanefnd. Ég átta mig á því að hv. þingmaður er ekki í þeirri stöðu að geta skilað inn nefndaráliti en ég verð að viðurkenna að ég átti von á einhverju öðru og meira frá þingflokki Viðreisnar en að taka bara undir með Samfylkingunni og verða þar af leiðandi einhvern veginn hluti af því sem þar segir.

Mig langar að nefna það sem hv. þingmaður kom inn á og var aðeins til umræðu fyrr í dag þar sem fólk var farið að búa til einhverja umræðu um að forsætisráðherra sé að fara að leggja fram breytingartillögu í þessu máli. Ég ætla bara að upplýsa það að mér er ekki kunnugt um slíkt og hef nú hlustað á þær fréttir sem verið er að vísa í og ég get ekki séð að hægt sé að lesa slíkt út úr því sem hæstv. forsætisráðherra svaraði fréttamönnum fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun.

Ég ætla bara að ítreka það sem kom fram í framsöguræðu minni að við höfum ákveðið að taka málið inn milli 2. og 3. umr. Það er ekkert leyndarmál, það var meira að segja ljóst í desember. Þetta er mál af þeim toga að við teljum ástæðu til þess, ekki síst líka til að bregðast við þeim umsögnum sem komu seint og þeim heimsóknum sem áttu sér stað t.d. í síðustu viku.

Að því sögðu langar mig að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í það sem hann talaði um áðan varðandi Evrópusambandið og þá stefnu sem hann telur ekki vera að virka í Evrópu með að reisa girðingar og ég get að mörgu leyti tekið undir hluta af þeirri stefnu. En það er nú samt kannski Evrópusambandið sem hv. þingmaður hefur gjarnan viljað að við göngum í og hv. þingmaður er fyrsti flutningsmaður á þingsályktunartillögu þess efnis að við eigum ekki að senda fólk aftur til Grikklands, Ungverjalands og Ítalíu, fólk sem er með vernd þar. Telur þingflokkur Viðreisnar að það sé eðlilegt að Ísland bjóði fólk sem þegar hefur hlotið vernd í þessum þremur ríkjum velkomið að koma hér inn í íslenska verndarkerfið? Er það það sem þingflokkur Viðreisnar er að leggja til með þessari þingsályktunartillögu?