Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Því er auðvitað til að svara að meirihlutaálitið er jú álit þeirra flokka sem mynda þessa ríkisstjórn og styðja hana, þetta er stefna hennar sem sést í þessu meirihlutaáliti. Aftur á móti er mjög gaman að fá loksins fram stefnu Viðreisnar í málaflokki útlendinga. Og bara svo að ég ítreki þessa spurningu mína: Flokkurinn er þá raunverulega að leggja til að þrjú Evrópusambandsríki, sem taka þátt í allri löggjöfinni sem virkar í Evrópusambandinu hvað þessa málaflokka varðar, sem veitt hafa fólki vernd — að allir sem fengið hafa vernd í þessum þremur Evrópusambandsríkjum geti komið til Íslands og fengið vernd. Ég get ekki skilið þessa þingsályktun og þessa umræðu öðruvísi og þá velti ég hreinlega fyrir mér: Er fólk búið að hugsa þetta til enda? Er fólk í alvöru búið að hugsa það til enda þegar aldrei fleiri hafa verið á flótta í heiminum öllum en akkúrat núna að litla Ísland ætli þá að segja: Heyrðu, við tökum á móti ykkur sem hafið þegar fengið vernd í þremur Evrópusambandsríkjum. Er það forgangsröðun þingflokks Viðreisnar?