Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:49]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og sömuleiðis vildi ég nefna það hér af því að það var vísað til þess að við í allsherjar- og menntamálanefnd hefðum farið í ferð til Danmerkur og Noregs að það var mjög gagnleg ferð. Þar vorum við reyndar líka að skoða stöðu fjölmiðla. Mín upplifun af þessu var að það er gjörólík nálgun á þetta hjá þessum tveimur ríkjum að mörgu leyti á þetta. En það sem mér fannst eiginlega áhugaverðast var hvernig talað er um þessi mál af hálfu stjórnvalda og stjórnmálamanna í ríkjunum tveimur. Það auðvitað hríslast síðan inn í viðhorf fólks almennt til þessa fólks sem er á flótta og þar þekkjum við auðvitað mætavel að Danir standa sig talsvert verr en Norðmenn. Það sem ég tók út úr þessu varðandi Noreg var þessi mikla áhersla sem var lögð á að virkja sveitarfélögin til þátttöku og hvernig sveitarfélögin höfðu þá aðkomu að því hvernig það var skipulagt út frá fjármagni og hvernig fjármagn flæddi þar á milli og annað í þeim dúr. Þar var margt auðvitað til eftirbreytni, fannst mér.

Varðandi þetta með fjölskyldusameiningarnar þá var, eins og hv. þingmaðurinn sagði, verið að beina til mín svona tiltölulega tæknilegum spurningum og ég ætla ekki að segjast vera með svarið við öllu í því. En mér fannst hálfpartinn eins og hv. þingmaður væri farinn að eiga orðastað við annan hv. þm. hér, Birgi Þórarinsson, í þessu öllu og það væri ágætt ef þau tvö tækju þetta samtal upp annars staðar þegar kemur að því að kryfja tölur eða statistík um þessa hluti.