Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég spurði líka hv. þingmann út í hvort það hefði verið til umræðu að svipta fólk sem er að óska eftir vernd allri þjónustu og hver viðbrögðin hefðu verið á Norðurlöndunum varðandi þetta, jafnvel í Danmörku líka sem rekur hvað hörðustu stefnuna á Norðurlöndunum. Einnig vil ég spyrja hv. þingmann út í umræðu í nefndinni í nefndaviku í síðustu viku varðandi þessa alheimsreglugerð sem er í rauninni verið að búa til, þessa heimasmíðuðu alheimsreglugerð varðandi það að senda fólk til þriðja ríkis, að senda fólk til ríkis sem Ísland hefur ekkert samstarf við þar sem fólk hefur ekkert öryggi fyrir því að vera með leyfi til dvalar eða leyfi til komu, hvernig þeir hagaðilar sem komu fyrir nefndina (Forseti hringir.) líta á þetta atriði, hvort sem um er að ræða Flóttamálastofnun, Rauða kross eða aðra sem best þekkja til.