Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:52]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrirspurnina. Núna er það þannig að það er auðvitað ekki hægt að svipta fólk gjörsamlega allri þjónustu. Það var reyndar áhugavert að heyra af því í Danmörku að fólk gat fests þannig í kerfinu að það var inni í tilteknum búðum, sem voru ekki alveg lokaðar en að einhverju leyti, jafnvel árum saman og naut þar auðvitað þá a.m.k. einhverra grundvallarmannréttinda. Varðandi þetta að við Íslendingar ætlum að senda fólk til ríkja sem ekki hafa samþykkt að taka á móti fólki og engir viðtökusamningar eru um eða ekkert samkomulag á milli ríkjanna, þá gat ég ekki betur heyrt en að þeir sem fyrir nefndina komu væru nú frekar mikið að veita þeirri hugmynd nokkuð mikla falleinkunn, enda kannski mjög skiljanlega. Þetta er ein af þeim furðuhugmyndum í þessu frumvarpi sem menn hafa verið að gjalda varhuga við, kannski ekki síst vegna þess að þetta býr til aukið skrifræði, (Forseti hringir.) þetta flækir mál og þetta er þvert á meginmarkmið frumvarpsins um að auka einhverja skilvirkni.