Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[16:54]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Frú forseti. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur verið samstiga í því að vinna málið vel, hvað sem sagt hefur verið. Ég er ánægð að nefndin muni kalla málið aftur inn í nefnd á milli 2. og 3. umr. og lagði á það áherslu sjálf. Málaflokkurinn er gríðarlega umfangsmikill og enginn getur lengur horft fram hjá þeirri miklu neyð sem milljónir fólks á flótta standa frammi fyrir. Skotgrafapólitík er málaflokknum síst til framdráttar og lagar stöðuna í stóra samhenginu ekki neitt. Því miður er þessi mikilvægi málaflokkur kominn til að vera sem viðfangsefni okkar á Alþingi og í samfélaginu öllu. Þegar við skoðum tölfræðina sjáum við mikla aukningu í fjölda sem kemur hingað til lands í leit að betra lífi. Frá árinu 2016 hafa umsóknir um vernd aukist um 294%. Við viljum að hægt sé að taka mannúðlega á móti fólki á flótta sem og öðrum innflytjendum. Til þess að svo megi verða þarf samfélagið að vinna saman. Skólar, ráðuneyti, stofnanir og sveitarfélög þurfa að vera í stakk búin til þess.

Vinstri græn hafa lagt áherslu á að aukin skilvirkni í málsmeðferð og að stytting málsmeðferðartíma megi ekki koma niður á mannúð. Ég minni á að mikil gagnrýni á málaflokkinn undanfarin ár hefur snúist að löngum málsmeðferðartíma, þannig að það að tala um skilvirkni er ekki vont og hræðilegt. Að sama skapi er eitt mikilvægasta skrefið til úrbóta í málaflokknum að málsmeðferðartíminn sé styttur og það sé meiri sanngirni í hvernig málum sé hagað þó að það orð sé erfitt að nota í þessum málaflokki, enda er enga sanngirni að finna þegar fólk þarf að flýja heimaland sitt. Þess vegna tel ég að 36. gr. laganna, eins og gerð er tillaga um að hún orðist í þessu frumvarpi, sé umtalsvert betri en hún hefur verið í áður framlögðum frumvörpum um þessi mál.

Virðulegi forseti. Hvernig viljum við sjá þróun þessa málaflokks til næstu áratuga? Hér er oft vísað til Svíþjóðar eða Danmerkur en við höfum ekki viljað mótað okkar stefnu í samræmi við þeirra áherslur. Við eigum að geta mætt hinum aukna fjölda með rausnarlegri móttöku fólks á flótta líkt og öll önnur ríki heims. Þá erum við með takmörk fyrir því hversu mörgum við getum tekið á móti þannig að vel sé haldið utan um fólkið. Kerfið okkar er ekki stórt en það hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Þau sem koma hingað með enga vernd og engin bjargráð í farteskinu eiga ekki að líða fyrir flækjustig kerfisins.

Við skulum ekki gleyma því að nú þegar hafa verið gerðar margar mikilvægar breytingar í málaflokknum og þar má sjá áherslur VG mjög glögglega. Uppskipting málaflokksins milli ráðuneyta er mikilvæg breyting sem ég kem síðar inn á. Í frumvarpinu má sérstaklega nefna breytingar sem tryggja betur stöðu þeirra sem veikast standa og ég kom að áðan. Þær breytingar eru að ekki verður heimilt að fella niður réttindi barna, foreldra eða umsjónarmanna þeirra og annarra heimilismanna sem teljast til ættingja barna, barnshafandi kvenna, alvarlega veikra einstaklinga og fatlaðra einstaklinga með langvarandi stuðningsþarfir þótt Útlendingastofnun hafði synjað umsókn þeirra um alþjóðlega vernd.

Virðulegi forseti. Barnaheill eru ein af þeim samtökum sem hafa sent umsagnir um málið og hefur frumvarpið tekið nokkrum breytingum til hagsbóta fyrir börn að þeirra mati. Sérstaklega taka þau fram að í frumvarpinu er lagt til að sett verði reglugerðarheimild um mat á hagsmunum barna og að ætlunin sé að gert sé ráð fyrir að undirbúningur reglugerðar um barnvænt hagsmunamat á umsóknum um alþjóðlega vernd verði samstarfsverkefni dómsmálaráðuneytis og mennta- og barnamálaráðuneytis. Slíka reglugerð þarf að setja. Í þessu samhengi bendi ég á Samantekt um stöðu barna í leit að alþjóðlegri vernd á Íslandi, tillögur til úrbóta frá árinu 2020. Samantektin var gerð að frumkvæði dómsmálaráðuneytisins og lýtur að lagaumhverfi og málsmeðferð stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd, með leyfi forseta:

„Markmið samantektarinnar var að rýna lagaumhverfi og meðferð þessara mála, taka saman helstu athugasemdir og gagnrýni sem fram hafa komið og leggja fram tillögur að mögulegum úrbótum til að tryggja enn frekar réttaröryggi og velferð barna sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi.“

Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð að leggja áherslu á að börn fái sjálfstæða málsmeðferð að því leyti að sértækt hagsmunamat fari fram gagnvart þeim, að þeirra hagsmunir séu metnir sérstaklega og ákvörðun um dvalarleyfi eða vernd tekin út frá forsendum hvers einstaklings fyrir sig, barns eða fullorðins. Þetta eigum við að taka alvarlega og þessu þarf að vinna að.

Virðulegi forseti. Í stjórnarsáttmála var málaflokknum skipt upp í afgreiðslu og þjónustu en nú er stór hluti kominn yfir í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Það skiptir nefnilega líka svo miklu máli að taka vel á móti þeim sem koma. Það var mikið framfaraskref þegar móttökumiðstöð fyrir flóttafólk opnaði í Reykjavík í apríl á síðasta ári. Móttökumiðstöðin er ný þjónusta sem miðar fyrst og fremst að þörfum umsækjandans. Þar koma saman ólíkar stofnanir sem allar vinna saman með það að markmiði að taka sem best á móti því fólki sem hingað kemur á flótta og veita því skjól og skilvirka þjónustu við komuna. Það er samdóma álit þeirra sem koma að þessu samstarfi að þessi miðstöð hafi aukið skilvirkni í þjónustunni við flóttafólk til muna. Þetta skiptir máli og við þurfum að halda áfram á þessari braut. Móttökumiðstöð er kom til vegna áhrifa Vinstri grænna á málaflokkinn.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að mótuð verði skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga á Íslandi. Stefnunni er ætlað að tryggja að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til að aðlagast og taka virkan þátt í samfélaginu, þar með talið á vinnumarkaði. Nú er þessi stefna í mótun, og undir forystu hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra, í fyrsta sinn. Nú þegar hefur Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, gert nokkra samninga um að styðja sérstaklega við þau sem veikast standa í þessu ferli, heyrnarlaust flóttafólk sem leitað hefur skjóls á Íslandi, fötluð börn af erlendum uppruna og hinsegin fólk, sem og mikilvægan samning við Rauða krossinn um fræðslu um menningarnæmi og fjölmenningu fyrir þjónustu- og viðbragðsaðila hér á landi sem sinna þolendum og gerendum ofbeldis af erlendum uppruna.

Aðgerðahópur um atvinnuréttindi mun bráðlega leggja fram tillögur um leiðir til að rýmka útgáfu dvalarleyfa vegna atvinnu fyrir fólk utan EES. Ég bind vonir við að samhliða breytingunum í þessum lögum, sem við ræðum hér í dag, gerum við fleirum kleift að koma hingað og vinna og taka þátt í samfélaginu og auðga það. Þá skiptir máli að þau sem óska sér að koma frekar til Íslands, en eru með vernd annars staðar, eiga að geta komið hingað á þeim forsendum, sótt um atvinnuleyfi, stofnað heimili og verið gjaldgeng í íslensku samfélagi, sem svo sannarlega þarf á þeirra liðsstyrk að halda í atvinnulífinu, án þess að þau þurfi að fara í gegnum verndarkerfið þegar þau eru komin með vernd annars staðar.

Eins og ég kom inn á í byrjun verður þetta viðvarandi verkefni okkar samfélags sem og annarra áfram á næstu árum og áratugum. Það er sannarlega mikið áhyggjuefni að í umsögnum um frumvarpið sé ítrekað bent á að stofnun sem á að þjónusta fólk sæti mikilli gagnrýni fyrir verklag og það við framkvæmd heildarlaga um útlendinga. Það þurfum við að taka alvarlega og það þarf stofnunin sjálf og dómsmálaráðuneytið að taka alvarlega og bæta úr.

Virðulegi forseti. Líkt og fram kom í upphafi máls míns hef ég kallað eftir því að málið gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. Eitt sem þarf að skoða betur er glæný skýrsla Rauða krossins um þær erfiðu aðstæður sem fólk býr við sem er í svokallaðri umborinni dvöl á Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og sýna m.a. að fólkið býr við mikla óvissu um hvort það geti lifað mannsæmandi lífi. Fólkið býr við réttaróvissu og hefur takmörkuð réttindi og aðgengi að þjónustu í ótilgreindan tíma. Það býr við mikla óvissu um framtíð sína og mikla vanlíðan. Að auki hefur nefndin, líkt og fram kom í máli framsögumanns meirihlutaálits, fengið til sín fjölmarga gesti á síðustu dögum og úr þeim fundum þarf að vinna.

Ég ætla að fara inn í þetta nefndarstarf sem fram undan er með það fyrir augum að vanda til verka. Það er von mín að okkur í allsherjar- og menntamálanefnd takist að standa saman að góðum úrbótum á lögunum, verkferlum, samtali og þjónustu fyrir þau sem til okkar leita eftir griðastað til heilla fyrir okkur öll, með það að markmiði að á Íslandi verði fjölmenningarsamfélag þar sem grundvallarstefin eru jafnrétti, réttlæti og virðing fyrir manneskjunni.