Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:16]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur fyrir spurninguna. Ég minntist á móttökustöðina og allsherjar- og menntamálanefnd var svo lánsöm að vera boðin í heimsókn til að skoða hana. Það var rosalega gagnlegt og þar fannst mér við fá að sjá hversu umfangsmikill málaflokkurinn er og hversu miklu máli það skiptir að við séum að vinna þetta saman, einmitt þvert á ráðuneyti. Það held ég að sé mjög góð leið. En mig langar líka að segja, þið munið að þegar Covid skall á þá gerðum við okkar besta og vissum ekki hvernig staðan yrði eftir þrjá mánuði, sex mánuði eða hvað. Við vorum bara að gera okkar besta. Við erum núna í þessari stöðu í þessum málaflokki. Þetta gerist gríðarlega hratt; innrásin í Úkraínu og loftslagsbreytingar í heiminum. Vandinn er kominn og stóri boltinn er í fanginu á okkur. Við verðum bara að reyna að vinna þetta vel og ég held t.d. (Forseti hringir.) að móttakan sé hluti af því að koma af stað einhverju skynsamlegu ferli.