Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:24]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Nú erum við í 2. umr. um mjög umdeilt frumvarp sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt ofuráherslu á að þvinga í gegnum þingið í fimmtu tilraun. Það hvernig hv. þingmenn í þeim flokki tala gefur okkur ákveðnar vísbendingar um það af hverju lögð er svona mikil áhersla á að keyra þetta frumvarp í gegn með valdi.

Af hverju erum við Píratar svona mikið á móti þessu frumvarpi og forverum þess? Er það af því að við viljum bara fjarlægja öll landamæri og leyfa hverjum sem er að koma hingað til lands? Ef hlustað er á málflutning stjórnarþingmanna þá vilja þeir telja þjóðinni trú um að svo sé en sannleikurinn er sá að við stöndum gegn þessu frumvarpi af því að við teljum að það brjóti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Já, við erum á móti þessu frumvarpi af því að það skerðir mannréttindi. Við höfum stjórnarskrá og mannréttindasáttmála sem segja að við eigum að veita þessu fólki mannréttindi. Þetta er grundvallaratriði sem við teljum að ekki megi hvika frá þegar sett eru lög á Íslandi, sér í lagi í lög sem snerta jaðarsetta hópa. Við báðum því um það inni í allsherjar- og menntamálanefnd að óskað yrði eftir áliti sérfræðinga á því hvort þetta frumvarp bryti í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála svo að við værum ekki bara að tala um einhverjar staðhæfingar frá okkur eða viðvörunarorð sem umsagnaraðilar skrifuðu. En nei, stjórnarmeirihlutinn valdi að hlusta ekki á þessar beiðnir okkar né það sem umsagnaraðilar höfðu að segja. Það mátti alls ekki biðja um slíkt álit frá óháðum aðila því að þá gæti það sýnt sig að við höfðum kannski rétt fyrir okkur og laga þyrfti frumvarpið enn og aftur.

Slíkt er ofbeldið við að þrýsta þessu frumvarpi í gegn að hv. þingmenn stjórnarflokkanna eru tilbúnir að brjóta drengskapareið sinn og setja lög sem ganga gegn stjórnarskrá lýðveldisins, svo lítið gefa þessir hv. stjórnarþingmenn fyrir lýðræðið og borgaraleg réttindi. Talpunktar meiri hlutans ganga síðan út á að ef þetta frumvarp verði ekki samþykkt óbreytt muni koma hingað flóðbylgja af hælisleitendum sem við munum ekki ráða við. Sú hræðsla er síðan nýtt til þess að skapa óánægju úti í þjóðfélaginu, sér í lagi hjá þeim sem halda að við þurfum að velja á milli þess að halda uppi velferðarkerfi eða taka á móti fólki í neyð. Nú síðast sáum við dómsmálaráðherra vísvitandi fara með rangt mál í fjölmiðlum og telja fólki trú um að allir þeir sem vísað var úr landi til Grikklands fyrir jól væru komnir hingað aftur. Það er allt gert til að reyna að þrýsta þessu frumvarpi í gegn, jafnvel blákaldar lygar.

Sé hins vegar lesið í gegnum frumvarpið sjálft kemur í ljós að það eru engin ákvæði í því sem vernda gegn þessari ímynduðu flóðbylgju hælisleitenda sem notuð er sem grýla gagnvart almenningi. Sannleikurinn er sá að ákvæði þessa frumvarps eru nær eingöngu lögð fram til þess að gefa Útlendingastofnun lagastoð fyrir ákvörðunum og framkvæmdum sem dómstólar hafa dæmt ólögmætar, dæmt sem brot á íslenskum lögum, brot á stjórnarskrá og brot á mannréttindasáttmálum sem við höfum skrifað undir. Með öðrum orðum: Þetta frumvarp hefur það eina markmið að gefa Útlendingastofnun lagagrundvöll til að brjóta á réttindum fólks. Það er nefnilega þannig að ef lýsa ætti þessu frumvarpi á sanngjarnan hátt er hér um að ræða tilraun framkvæmdarvaldsins til að réttlæta með lögum þau mannréttinda- og stjórnarskrárbrot sem þau hafa verið að reyna að framkvæma undanfarin ár en verið gerð hornreka með. Það er hægt að spyrja sig af hverju framkvæmdarvaldinu er svona umhugað um að mega brjóta á réttindum fólks á flótta. Hvatarnir geta verið margir og ef tími gefst til mun ég í þessari 2. umr. reyna að nefna nokkra þeirra og velta því upp hvort þessir hvatar samræmast þeim gildum sem við Íslendingar viljum standa fyrir.

Snúum okkur aftur að þeim brotum gegn stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum sem frumvarpið leggur til. Byrjum t.d. á því að skoða nokkrar greinar stjórnarskrár íslenska lýðveldisins. Byrjum á því sem stendur í 65. gr., með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.“

Já, þarna stendur „allir“ en stjórnvöld hafa ákveðið að mannréttindi og jafnræði fyrir lögum eigi ekki við um alla, bara ákveðna alla. Það minnir á fræga setningu úr sögu George Orwells þar sem sum dýr voru jafnari en önnur dýr. Förum svo í 70. gr., með leyfi forseta:

„Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.“

Aftur sjáum við að talað er um að öllum beri réttur. Aftur er stjórnarskráin að tala um alla, ekki bara ákveðinn hóp eins og t.d. ríkisborgara. Þarna stendur að allir eigi að hafa rétt á að fá úrlausn á sínum málum en frumvarpið sem við erum að ræða hér dregur úr þessum rétti hjá þeim sem hingað koma í leit að alþjóðlegri vernd. Þeirra mál fá jafnvel ekki úrlausn því að við sendum þau úr landi áður en mál þeirra koma fyrir dóm og þá falla þau bara niður. Þrátt fyrir að 66. gr. segi að allir séu jafnir og 70. gr. segi að allir eigi að fá úrlausn þá eru það bara þeir sem eru útvaldir sem ríkisstjórnarflokkarnir vilja að njóti þeirra réttinda sem eru grundvöllur réttindakafla stjórnarskrárinnar.

Skoðum næst 76. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.

Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.

Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“

Þarna eru athyglisverð atriði sem vert er að skoða nánar með tilliti til þess frumvarps sem hér er verið að ræða. Byrjum á fyrstu málsgreininni. Í frumvarpi þessu er lagt til að 30 dögum eftir synjun um veitingu alþjóðlegrar verndar missi hælisleitendur aðgang að heilbrigðiskerfinu og missi þann stuðning sem þeim hefur verið veittur á þeim tíma sem það tók Útlendingastofnun að úrskurða í málunum. Enn og aftur, það stendur í stjórnarskránni að öllum skuli tryggður réttur til aðstoðar en í þessu tilfelli vilja hv. þingmenn stjórnarflokkanna ekki að allir þýði í raun allir, heldur gildir þetta nú bara um útvalda alla. Aðrir mega bara éta það sem úti frýs og deyja drottni sínum því að alls ekki viljum við hjálpa þeim.

Í 3. mgr. er sérstaklega talað um börn og að þeim skuli vera tryggð sú vernd og umönnun sem þau krefjast. Flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna taka báðir á því hvernig börn eigi að fá aukna viðurkenningu og stuðning þegar þau eru á flótta. Báða þessa samninga hefur Ísland skrifað undir og lögfest en hv. þingmenn stjórnarflokkanna virðast hunsa þá jafn mikið og stjórnarskrána. Þessir hv. þingmenn og ráðherrar þessara mála láta það líðast að Útlendingastofnun dragi viljandi mál fylgdarlausra barna á flótta og bíði eftir að þau nái 18 ára aldri til að vísa þeim úr landi sem fullorðnum einstaklingum. Þessi framkvæmd er skýlaust brot á stjórnarskrá, barnasáttmála, flóttamannasamningi og Mannréttindasáttmála Evrópu en með þessu frumvarpi er ekkert gert til að draga úr þessu ómannúðlega broti framkvæmdarvaldsins heldur frekar reynt að renna stoðum undir það eins og hefur verið farið í gegnum hér áður. Meiri hluti hv. allsherjar- og menntamálanefndar reynir að hvítþvo sig af þessum brotum á réttindum barna með því að bæta inn í frumvarpið bráðabirgðaákvæðum þar sem börnum sem hafa verð hér um langt skeið er veitt vernd. Það hljómar eins og góðmennskan hafi í nokkrar mínútur náð að skína í gegnum hatrið. Sannleikurinn er sá að það er þegar verið að vísa þessum börnum úr landi svo að mörg þeirra fara fyrir jól til Grikklands og því hefur verið haldið áfram. Þrátt fyrir að þetta ákvæði sé að koma inn í þingið hefur ekkert verið slegið af því að koma sem flestum þeirra úr landi áður en það tekur gildi. Já, sýndarmennskan er endalaus hér inni.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þannig að hér er verið að ræða um skerðingu á mannréttindum fyrir jaðarsettan hóp fólks sem á sér engan málsvara. Presturinn Martin Niemöller orti ljóð í lok seinni heimsstyrjaldarinnar sem hljómaði í lauslegri íslenskri þýðingu á eftirfarandi veg, með leyfi forseta:

Fyrst komu þeir og sóttu kommúnistana. Ég sagði ekkert því að ég var ekki kommúnisti. Síðan sóttu þeir gyðingana. Ég sagði ekkert af því að ég var ekki gyðingur. Þá komu þeir til að sækja verkamennina, félaga í stéttarfélögum. Ég var ekki stéttarfélagi. Þar á eftir sóttu þeir kaþólikkana. Ég sagði ekkert af því að ég var mótmælandi. Loks komu þeir til að sækja mig og enginn var eftir sem gat sagt neitt.

Virðulegi forseti. Þegar gengið er á mannréttindi jaðarhópa er mikilvægt að það séu einhverjir sem standa vörð því að ef við gerum það ekki þá munu þessi réttindi verða tekin af jaðarhópunum, einum í einu.

Virðulegi forseti. Það er hægt að rífast hér inni um það hvort við eigum að vera með mannúðlega stefnu í málefnum þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd. Þar getum við haft ólíkar skoðanir. Sumir vilja banna öllum útlendingum að koma hingað til lands með öllum tiltækum ráðum á meðan aðrir vilja opna landamæri. Um það getum við eflaust rætt endalaust en ég minni hv. þingmenn á að þegar þeir settust hér á þing þá gerðu þeir, eins og við öll, það að skrifa undir drengskaparheit. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ég undirskrifaður/uð, sem kosin(n) er þingmaður til Alþingis Íslendinga, heiti því, að viðlögðum drengskap mínum og heiðri, að halda stjórnarskrá landsins.“

Þetta þýðir mjög einfaldlega að þeir hv. þingmenn sem vilja setja lög sem ganga mögulega þvert á stjórnarskrá landsins eru að brjóta sinn drengskapareið og þar með að tapa sínum drengskap og heiðri. Því miður er þess ekki getið í lögum hvað gerist ef þingmenn vísvitandi, þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir, brjóta drengskap. Það er spurning hvort við þurfum að skoða a–c-lið 5. gr. siðareglna alþingismanna en aðeins tíminn mun leiða það í ljós.

Það eru komnar fram ítrekaðar áhyggjur, ekki bara einhverjar frá Pírötum heldur frá umsagnaraðilum sem þekkja þessi mál mjög vel, þar sem bent er á að það séu miklar líkur á að verið sé að brjóta mannréttindi sem eru í stjórnarskránni, Mannréttindasáttmála eða barnasáttmála, og ítrekað sé ekki einu sinni spurt um óháð álit. Það bara hreinlega skil ég ekki. Er svona mikil hætta við það að fá óháð álit um það hvort þetta standist stjórnarskrá? Kannski stenst þetta bara stjórnarskrá og mannréttindi og þá hafið þið það í valdi ykkar að geta sagt: Píratar, þessi óháði aðili sagði að þið væruð bara vitleysingar. Nei, það þorðu hv. þingmenn ekki að gera í allsherjar- og menntamálanefnd heldur vilja þeir frekar þrýsta málinu í gegnum þingið og bíða svo eftir því að dómstólar dæmi þessi lög sem brot á stjórnarskrá. Og af hverju er það svona gott? Jú, vegna þess að þá getum við losnað við eitthvað af fólkinu á meðan með þessum ólöglegu lögum.

Ég hreinlega skil ekki svona vinnubrögð. Ég hélt að við værum hérna inni til að vinna fagmannlega að því að breyta lögum hér á Íslandi. (BHar: Og málefnalega líka?) Ég veit ekki betur en að ég sé búinn að fara málefnalega í gegnum hvað ég tel vera brot á hlutum. Umræðan hér í þingsal, ég veit ekki hvernig það er inni í nefndinni en alla vega hér í þingsal, gengur öll út á það að slá fram einhverjum hræðsluáróðri í stað þess að ræða hlutina hreint og klárt. Hv. þm. Jódís Skúladóttir sagði: Við þurfum að breyta þessu. Og þegar við spyrjum: Hverju þurfum við að breyta í henni? þannig að við getum rætt það hérna inni í þingsal. Nei, það má ekki, það þarf að halda því leyndu þangað til það er komið í nefnd aftur. Þetta er ekki lýðræði, þetta er ekki það að fara í þinglega meðferð. Þingleg meðferð þýðir að við tökumst á um málin hérna inni. Ég er að segja ykkur hvað mér finnst að, hverju þurfi að breyta og af hverju, vegna þess að það er það sem okkar þingsköp segja til um að ég eigi að gera. Ég á ekki að halda mínum skoðunum leyndum þangað til frumvarpið er farið og búið og tala um það þá.

Ég bara hreinlega skil þetta ekki. Ég spyr sjálfan mig stundum að því hvort hv. þingmenn stjórnarflokkanna séu virkilega tilbúnir að leggjast svona lágt, bara til þess að halda einum flokki eða jafnvel einum ráðherra ánægðum í ríkisstjórn. Er ekki mikilvægara að ná t.d. sátt um þessi mál? Það hefur aldrei verið reynt, aldrei, og ég spyr sjálfan mig: Af hverju ekki?