Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[17:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar sitt við spurningunni hér. Mér finnst við vera að nálgast það að ræða efnislega hvaða sýn og hvaða nálgun við höfum í málinu en erum ekki bara með einhvers konar sleggjudóma eða breiðar línur sem mér finnst mála yfir „núansa“ í þessu máli. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann, vegna þess að það kom einnig fram í máli hans að hann telji mikilvægt að ræða hlutina og leita sátta, hvort hann telji núgildandi lög, sem voru samþykkt hér í breiðri sátt en eru engu að síður þannig að það fá ekki allir vernd, hvort hann sé þá í raun ósáttur við þau lög.

Ég tel að það sé verið, meira að segja með því frumvarpi sem við erum að ræða hérna, að líta til þess að það þurfi sérstaklega að horfa til fólks í viðkvæmri stöðu. Börn fá aukinn stuðning og aukin réttindi í því. En það er hins vegar líka þannig í núgildandi lögum að það eru ekki öll börn sem fá hæli og að dvelja hér. Þannig að mig langar að biðja hv. þingmann aðeins að fjalla nánar um það hvort hann telji í rauninni lögin sem eru núna í gildi ekki vera jafn góð og stundum er látið að liggja þó svo að þau hafi verið unnin í þessari breiðu sátt.