Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir nefndarálit 1. minni hluta sem var flutt af hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, en langar að bæta örlitlu við. Við erum að ræða fimmtu atlögu ríkisstjórnarinnar til að ná fram svipuðu frumvarpi, og þau hafa öll verið lögð fram af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Öll, með samþykkt, hefðu skemmt að hluta þær úrbætur sem voru gerðar í núverandi lögum í þverpólitískri sátt. Núverandi lög eru sannarlega ekki gallalaus en það sem helst hefur staðið í mörgum hefur þó fyrst og fremst verið framkvæmd laganna og skortur á skýrleika.

Undir lok kjörtímabilsins 2017, um haustið, var mikill meiri hluti þingheims sammála um að yfirfara þyrfti lögin þannig að framkvæmd yrði meira í takt við vilja þingsins. Þar sem skammt var til kosninga var látið nægja að samþykkja lagabreytingu til að koma til móts við börn í viðkvæmri stöðu. Hún var með sólarlagsákvæði sem rann út skömmu eftir næstu kosningar sama ár, enda höfðu formenn allra stjórnmálaflokkanna sem áttu fulltrúa á þingi, nema formaður Sjálfstæðisflokksins, undirritað samkomulag þess efnis að forgangsverkefni nýs kjörtímabils væri endurskoðun útlendingalaganna í þverpólitískri sátt. Hafa skyldi sérstaklega í huga að bæta réttarstöðu fólks í viðkvæmri stöðu, ekki síst barna og kvenna. Nú sagði framsögumaður málsins áðan, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, að hún hefði lagt sig fram um að ná sem mestri sátt inni í nefndinni þegar málið kom þangað inn. En það hefði verið betra ef það samráð hefði hafist fyrr, í samræmi við þetta samkomulag.

Það átti sem sagt að freista þess að vinna málið í sem mestri sátt líkt og tókst 2013–2016 undir stjórn þáverandi þingmanns, Óttars Proppés, og voru flestir sammála um að sú aðferðafræði hefði reynst vel þrátt fyrir allt. Það er skemmst frá því að segja að þetta samkomulag var fullkomlega hunsað og það var alveg ljóst frá fyrstu stundu að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að stýra ferðinni einn á sínum forsendum án nokkurs samstarfs við aðra flokka, án samráðs við þá aðila sem mesta reynslu hafa þó af þjónustu við fólk á flótta. Nú get ég í sjálfu sér ekkert gert athugasemd við þetta verklag Sjálfstæðisflokksins, enda var hann ekki aðili að þessu samkomulagi. En ég varð mjög hissa og vonsvikinn yfir að samstarfsflokkarnir tveir, Framsókn og Vinstri græn, skyldu þverbrjóta loforðið og leyfa því að gerast og láta Sjálfstæðisflokkinn spila einleik í málinu lengi vel, ekki síst þar sem það hefur komið fram margoft á síðustu fjórum árum að margt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðið upp á í fyrri tilraunum sínum hefur ekki hugnast samstarfsflokkunum. Svo einhverrar sanngirni sé gætt þá hafa Vinstri græn líka, lengst af, lagt þó nokkra steina í götu fyrri frumvarpa.

Nú er hins vegar allt annað upp á teningnum og það bendir allt til þess að þetta frumvarp verði að lögum. Málið hefur verið afgreitt út úr stjórnarflokkunum án fyrirvara og út úr nefnd með stuðningi sömu flokka. En hvað veldur því að Vinstri græn styðja nú málið heils hugar — það veit ég ekki. Það væri gagnlegt ef þingmenn þeirra myndu treysta sér að koma hingað upp og gera grein fyrir afstöðu sinni til málsins því að þau geta ekki lengur skýlt sér á bak við Sjálfstæðisflokkinn eða hæstv. dómsmálaráðherra. Verði frumvarpið að lögum, eins og margt bendir til, þá bera þau bara nákvæmlega sömu ábyrgð á þeim og Sjálfstæðisflokkurinn.

Samfylkingin er sammála því að hér þurfi að vera skýr lög um málefni útlendinga. En við getum ekki sætt okkur við að réttur flóttamanna sé skertur á þann hátt sem gert er í frumvarpinu og í bullandi ágreiningi hér inni í þinginu og án samráðs við marga þá aðila sem best þekkja til málaflokksins og starfa við að aðstoða það fólk sem hingað hefur leitað, fólk sem er í eins viðkvæmri stöðu og hægt er að hugsa sér. Það hefur neyðst til að yfirgefa heimili sitt, líf sitt, þjóð sína og samfélag, og slíku fólki verður einfaldlega að mæta af meiri mannúð og virðingu, ekki skapa úr aðstæðum þess ímyndaðar ógnir til að veifa í pólitísku skyni, eins og mér hefur þótt hæstv. dómsmálaráðherra ítrekað gera síðustu mánuði. Sérhver manneskja á einfaldlega rétt á mannúðlegri málsmeðferð og við eigum að láta það vera forgangsatriði við breytingar á frumvarpi af þessu tagi.

Í þessu frumvarpi virðist hins vegar tilhneigingin vera að þrengja að fólki á flótta og draga úr réttindum þess. Samfylkingin vill virða það samkomulag sem var gert af formönnum stjórnmálaflokkanna haustið 2017 og vinna að breytingum á frumvarpi um útlendinga í þverpólitískri sátt og byggja á fyrra frumvarpi. Þar verði lögð áhersla á mannúð, ábyrgð og framtíðarsýn. Við þurfum innflytjendalöggjöf og löggjöf sem er í takti við stöðu heimsmála en endurspeglar líka þann veruleika sem við búum við í íslensku samfélagi til framtíðar. Til að það takist þurfum við að nýta bestu fáanlegu þekkingu og reynslu og hlusta líka á viðhorf innflytjenda sem hafa reynslu af kerfinu og þekkja best hvernig það er að setjast að í íslensku samfélagi, ekki semja þetta án samráðs við þessa hópa inni í lokuðu ráðuneyti eins og virðist hafa verið gert og senda svo til þingsins. Þessum bættu lögum þyrfti að fylgja skýr áætlun sem auðveldar innflytjendum, hvort sem er á flótta eða ekki, að fá tækifæri til að skapa sér farsælt líf í íslensku samfélagi.

Frú forseti. Hver er svo almennt reynsla okkar af fólki sem hingað hefur flutt síðustu ár og áratugi? Jú, það hefur auðgað mannlífið en líka skipt sköpum á því hagvaxtarskeiði undanfarins áratugar, og rannsóknir sýna að íslenskur vinnumarkaður þarf aukinn fjölda fólks í ýmis störf á næstu árum og áratugum, þar með talin fjölmörg brýn störf við grunnþjónustu. Þjóðinni fjölgar, hún eldist og það kallar einfaldlega á fleiri vinnandi hendur. En þó að hin efnahagslega hlið skipti auðvitað mjög miklu máli í þessu samhengi þá er það fráleitt það eina sem skiptir máli. Við berum auk þess alþjóðlegar skyldur, svo ekki sé minnst á hinar siðferðilegu skyldur sem ríkt land í flóknum og brothættum heimi hefur. Þess vegna eiga ábyrgð, virðing og mannúð að vera meginþættir við mótun frumvarps af þessu tagi. En í stað þess að ríkisstjórnin hafi kjark og víðsýni til að takast á við þau tækifæri sem felast í endurskoðun útlendingalaga og stefnumótun í málefnum útlendinga, flóttafólki, innflytjendum og íslensku samfélagi til heilla, ber frumvarpið vott um hræðslu, afneitun og ábyrgðarleysi.

Frú forseti. Því miður þá inniheldur frumvarpið sem hér um ræðir mörg ákvæði sem beinlínis skerða réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd og veita þeim lakari rétt en þann lágmarksrétt sem tryggður er í stjórnsýslulögum. Þá er réttur flóttafólks til fjölskyldusameiningar í ákveðnum tilfellum felldur niður en hann er grundvallarréttur og jafnframt forsenda fyrir árangursríkri aðlögun. Meðal margra neikvæðra breytinga frá núverandi lögum vil ég þó sérstaklega staldra við 6. gr. frumvarpsins, eins og margir hafa raunar gert því að þar er lagt til að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði sviptir þjónustu 30 dögum eftir að ákvörðun um synjun varð endanleg á stjórnsýslustigi. Hér erum við að tala um, herra forseti, sviptingu á húsnæði, framfærslu og heilbrigðisþjónustu. Svo ég vísi í nefndarálit 1. minni hluta frá hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur þá segir að það verði, með samþykktum slíks ákvæðis, kaflaskil í meðferð íslenskra stjórnvalda á fólki sem óskað hefur eftir vernd, og það er auðvitað bagalegt. Með því að nota þjónustusviptingu til að þrýsta á umsækjendur að yfirgefa landið eru heimilisleysi, sárafátækt og skortur á heilbrigðisþjónustu notuð sem tæki til að takmarka straum flóttafólks hingað til lands og neyða fólk til að fara. Á einfaldri íslensku má í sjálfu sér segja að það sé verið að svelta fólk í viðkvæmri stöðu til samstarfs. Fyrir utan hvað það er ótrúlega ómanneskjuleg nálgun að svipta fólk húsnæði, framfærslu og heilbrigðisþjónustu, þá er einfaldlega verið að færa til kostnað frá ríki yfir á herðar sveitarfélaga sem ber samkvæmt lögum skylda til að veita fólki í neyð þjónustu. Þá er líklegt að þetta muni líka hafa í för með sér kostnað fyrir heilbrigðiskerfið, því að það er augljóst að fólk sem svipt hefur verið rétti til heilbrigðisþjónustu leitar hennar ekkert fyrr en í nauðir rekur, þegar það er orðið fársjúkt. En þá ber sem betur fer að veita þeim þjónustu í samræmi við mannréttindasamninga.

Á þetta bendir raunar Læknafélag Íslands í umsögn sinni. Þar er áréttað að heilbrigðisþjónusta sé grundvallarmannréttindi, eins og komið hefur fram í fjölmörgum mannréttindasamningum sem Ísland hefur staðfest, m.a. samkvæmt Helsinki-yfirlýsingunni sem kveður á um skyldu heilbrigðisstarfsfólks til að aðstoða fólk í neyð. Í umsögn embættis landlæknis segir einnig að það sé óásættanlegt að svipta fólk réttinum til heilbrigðisþjónustu. Embættið undirstrikar að heilbrigðisþjónusta sé grundvallarmannréttindi sem byggist á alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Frú forseti. Fleiri sendu inn umsagnir. Ég held að um 20 umsagnir hafi borist og allir umsagnaraðilar, ef frá er skilið dómsmálaráðuneytið, gerðu margvíslegar og mjög alvarlegar athugasemdir við þær breytingar sem eru lagðar til nú. En það virðist eins og nefndin hafi a.m.k. að mjög litlu leyti séð ástæðu til að taka tillit til þeirra. Meðal þeirra fjölmörgu sem sendu inn umsagnir voru Mannréttindastofnun Íslands og Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindastofnunin benti á hvað það væri óheppilegt að hvorki væri vísað til ákvæða stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu í athugasemdum við frumvarpið. Slíkt væri einkar óheppilegt þar sem efni frumvarpsins varðaði með augljósum hætti mannréttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Nefndarmenn vöktu, skilst mér, athygli á þessu í allsherjar- og menntamálanefnd og lögðu til að málinu yrði vísað til ráðuneytisins þar sem það væri ótækt til áframhaldandi þinglegrar meðferðar í ljósi þessara athugasemda, en ekki var leitað eftir óháðum umsögnum utan úr bæ. Í umsögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna var vísað til fyrri umsagnar stofnunarinnar um eldri frumvörp, sem urðu reyndar ekki að lögum, og þar komu fram margvísleg tilmæli stofnunarinnar sem meiri hlutinn hefur ekki virt viðlits við frumvarp þetta, þrátt fyrir að í 3. mgr. 23. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sé kveðið á um skyldu íslenskra stjórnvalda til að eiga samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna í samræmi við alþjóðasamninga um stöðu flóttamanna, m.a. um framkvæmd og túlkun þess samnings og laganna. Mér finnst það nöturlegt að Alþingi Íslendinga ætli að gera að engu ítarleg tilmæli stofnunarinnar um breytingar á frumvarpinu og maður hlýtur að spyrja sig hvaða kraftar séu að verki og hvaða hugsun búi að baki því að þvinga málið í gegn án þess að skoða betur þær fjölmörgu athugasemdir.

Frú forseti. Fyrir utan þann skort á mannúð sem mér finnst gegnumsýra þetta frumvarp blasir við frekar heimóttarleg sýn stjórnvalda sem virðast ekki átta sig á í hvers konar veröld við lifum og á hvers lags tímum við lifum í augnablikinu. Við lifum í heimi sem hefur með aukinni tækni skroppið saman þannig að okkur berast daglega hversdagslegustu fréttir frá fólki úr fjarlægustu heimshlutum. Í hugum flestra hefur þetta opnað augun fyrir því að við tilheyrum öll hvert öðru, mannkynið. Við erum ein stór heimsfjölskylda. Sú tilfinning að við komum hvert öðru við minnkar ekkert þegar við lítum til þess að við munum aldrei ráða við stærstu áskoranir mannkyns í augnablikinu, ófrið, örbirgð, misskiptingu og loftslagsvána, nema mannkynið vinni miklu betur saman en það hefur gert hingað til.

Að lokum, frú forseti, er líklegt að þetta frumvarp verði að lögum. Það er ekki annað að heyra hér í dag. Það verður þá samþykkt af stjórnmálafólki sem virðist algerlega búið að gleyma því að fyrir rétt rúmum 100 árum stóðu Íslendingar í svipuðum sporum og margir sem leita nú hingað eftir betra lífi. Þá flúðu um 15.000 Íslendingar örbirgð og barnadauða vestur um haf og á þeim tíma voru það um 20% af íslensku þjóðinni. Fáir hafa líklega lýst þeim aðstæðum betur en Halldór Laxness í upphafi sögunnar Brekkukotsannáll þar sem segir, með leyfi forseta:

„Í það mund sem ég var að verða til, þá var þar í kotinu mikil örtröð af því fólki sem nú á dögum heitir flóttamenn; það er að flýa land; það leggur á stað með tárum úr heimkynnum sínum og ættbygð af því svo illa er að því búið heimafyrir að börn þess ná ekki þroska heldur deya.“