Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:29]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að víkja að framkvæmdinni á Norðurlöndum og sérstaklega reynslu Dana í málefnum hælisleitenda. Danskir jafnaðarmenn hafa lýst stefnu fyrri ára í hælisleitendamálum sem mistökum og segja evrópska hælisleitendakerfið hrunið. Danskir jafnaðarmenn segjast vilja hverfa frá stefnu sem reynst hafi mistök. Danir eru ekki einir á báti, norska ríkisstjórnin segist í stjórnarsáttmála vilja fylgja evrópskri viðleitni í þessa átt.

Hvergi á Norðurlöndunum eru jafn margar umsóknir um alþjóðlega vernd og hér á landi sé miðað við höfðatölu eins og komið hefur fram í þessum umræðum. Þetta er til marks um að hér á landi er rekin stefna sem Norðurlöndin hafa horfið frá og danski forsætisráðherrann segir að hafi verið mistök. Í stefnuyfirlýsingu danskra jafnaðarmanna segir að margt af því fólki sem komið hafi til Danmerkur og Evrópu á síðustu árum sé ekki flóttamenn heldur farandfólk í leit að betra lífi. Verði samþykkt að slíkir fái vist í Danmörku muni margir leita þangað. Þetta ráði danskt samfélag ekki við, málið snúi að sjálfu samfélaginu, velferðarkerfinu og hlutskipti launafólks á dönskum vinnumarkaði, segja danskir jafnaðarmenn. Þetta kemur fram í ágætum greinum eftir Ólaf Ísleifsson, fyrrverandi alþingismann, og ég hvet þingmenn til að lesa þær.

Íslendingar vilja leggja sitt af mörkum í flóttamannavanda samtímans en augljóst er að Ísland hefur ekki burði til að taka við margfalt fleiri umsækjendum um alþjóðlega vernd en aðrar Norðurlandaþjóðir gera. Hér verður að grípa til aðgerða áður en í óefni er komið og þetta frumvarp er skref í rétta átt. Hv. þingmaður talaði um ábyrgð Samfylkingarinnar og þá vil ég spyrja hann: Er það ekki ábyrgðarleysi af hálfu Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) að vilja ekki horfa til reynslu Norðurlandanna í þessum málaflokki?