Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 54. fundur,  24. jan. 2023.

útlendingar.

382. mál
[18:31]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér þýðir bara einfaldlega ekki að grauta saman Norðurlöndunum eins og þau séu eitt og hið sama og reki sömu stefnu. Samkvæmt skýrslum kemur nú fram að Norðmenn og Svíar hafi í rauninni tekið á móti miklu fleirum í gegnum tíðina, þegar við horfum 30–40 ár aftur í tímann, heldur en Danir. Það hefur held ég ekki verið neitt leyndarmál hér í þinginu að ég hef ekki verið neinn sérstakur aðdáandi danskra jafnaðarmanna þegar kemur að útlendingamálum. Þau hafa talað um að dönsk yfirvöld vilji hörðustu stefnu í Evrópu í flóttamannamálum. Við jafnaðarmenn á Íslandi viljum það alls ekki, við viljum feta hóflega leið.

Ég held að það skipti ótrúlega miklu máli svo margt þegar kemur að móttöku flóttamanna. Ég bjó mörg ár í Ósló í Noregi. Þar t.d. voru flóttamennirnir, kannski metið af tilviljun að einhverju leyti, búsettir í miðborginni en ekki í úthverfunum. Þeir blönduðust hraðar og urðu svona eðlilegri hluti af mannlífinu. Ég held að það getum við gert hér á Íslandi. Við erum, held ég, flink ef við tökum okkur til í að laga fólk að aðstæðum og laga okkur að aðstæðum þess.

Ég ítreka það sem ég hef sagt og sagði í tveimur síðustu andsvörum að við erum algerlega sannfærð um það í Samfylkingunni að við þurfum að hafa skýr lög og reglur um móttöku flóttamanna og fólks sem hingað leitar og vill búa hérna en við viljum gera það og byggja það á miklu meiri mannúð heldur en verið hefur.